Grundarfjarðarbær hefur á undanförnum vikum úthlutað fjölda lóða til byggingar íbúðarhúsnæðis. Eftirspurn eftir húsnæði hefur enda verið mikil og viðvarandi síðustu mánuði og margir sem sækjast eftir að flytja til staðarins. Nær allt íbúðarhúsnæði sem til sölu hefur verið hefur selst og dæmin sýna að ef hús hefur komið á söluskrá þá hefur ekki þurft að bíða marga daga eftir að það seldist.

 

Á síðustu fimm vikum hefur 17 lóðum verið úthlutað undir 20-23 íbúðir og 5 lóðum hefur verið endurúthlutað, þannig:

 

  • 4 lóðum til einstaklinga, 5 lóðir eru þá undir byggingarrétti einstaklinga nú
  • 14 lóðum til byggingarverktaka fyrir raðhús/parhús/einbýlishús en einni þar af undir lítið fjölbýlishús
  • 4 lóðum var endurúthlutað til byggingarverktaka og annar verktaki hafði fyrir 3 lóðir, þar af er jarðvegsskiptum lokið á 2
  • fjögurra íbúða fjölbýlishús er fyrir í byggingu

Verktakar hafa áform um að hefja byggingar á þessum lóðum í ár og á næsta ári, en ef byggingar á öllum þessum lóðum ganga eftir má áætla að það geti þýtt um 30-40 íbúðir. Rétt er að hafa nokkra fyrirvara á þeirri tölu. Ef áfram er haldið með vangaveltur um áhrif þeirra bygginga og gert ráð fyrir að í þær flytji nýir íbúar má slá á að skv. "norminu" þýði það um 100-150 nýja íbúa. En aftur er áréttað að rétt er að hafa á öllu þessu nokkra fyrirvara.

Aðalskipulag þéttbýlisins er að finna hér á vefnum (hægt er að stækka kortið með því að ýta á + takkann eða "zoom-in").

Yfirlit yfir lausar byggingarlóðir hefur úrelst fljótt síðustu daga og vikur og þarfnast enduruppfærslu á næstunni.

Reglur um úthlutun Grundarfjarðarbæjar á byggingarlóðum er einnig að finna hér á vefnum.