Árið 1997 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Ríkisstjórn og sveitarstjórnum á hverjum tíma ber skv. þeirri ályktun að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar og búsetu.

 

Nokkur sveitarfélög hafa sett sér fjölskyldustefnu, s.s. Garðabær, Akureyri, Akranes, Húsavík og Sveitarfélagið Álftanes. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur einnig samþykkt að vinna að setningu fjölskyldustefnu Grundfirðinga.  

 

Hvers vegna fjölskyldustefna?

 

Grundarfjarðarbær rekur ýmsar þjónustustofnanir og stendur fyrir margvíslegri starfsemi, s.s. í skólum, félagsmiðstöð, íþróttamannvirkjum, með félagsstarfi eldri borgara o.fl. Auk þess ver sveitarfélagið fjármunum til uppbyggingar þjónustu á annarra vegum, s.s. með styrkjum til íþróttafélaga, Dvalarheimilis og framlagi til Fjölbrautaskóla og fleira.

 

 

Sammerkt þessum stofnunum og starfsemi er að allir viljaná árangri, veita betri þjónustu og sinna sínu hlutverki, betur í dag en í gær. Þannig þarf það líka að vera. Alltaf er að einhverjum góðum markmiðum að keppa, þó ekki sé alltaf hægt um vik. Lykilatriði í því að ná árangri í starfi viðkomandi stofnunar, er að samstarf við notendur þjónustunnar sé gott. Hvað vilja notendur og hvernig líkar þeim þjónustan? Hvað leggja íbúarnir sjálfir af mörkum? Á íbúaþingi í mars sl. var spurt um þetta. Fjölmörg svör og ábendingar komu þar fram um hvernig íbúar vilja byggja upp samfélagið sitt.    

Á vegum annarra en bæjarins er líka að finna stofnanir og starfsemi, s.s. heilsugæslu, Dvalarheimili, kirkju/safnaðarstarf, lögreglu, íþróttafélög, stéttarfélög og önnur félög. Í tæplega þúsund manna samfélagi er áberandi hve stofnanir og málaflokkar tengjast. Gott samstarf ólíkra stofnana og starfsemi er án efa einn af lyklunum að aukinni velgengni og bættri þjónustu. Bent hefur verið á, að ef við viljum góðan árangur úr samræmdum prófum í 10. bekk, þá liggi lykillinn að því í uppeldi og mótun strax á ,,leikskólaárum”. Hið góða samstarf leikskóla og heilsugæslustöðvar, m.a. um þroskamat og ýmislegt sem snýr að uppeldi og heilsu ungra barna, hefur sannað gildi sitt. Í verkefni sem bærinn vann í samkeppni um Rafrænt samfélag fyrir 2 árum komu fram sjónarmið um að nýta tæknina til að koma rjúfa einangrun ýmissa hópa og koma upplýsingum á framfæri – á báða bóga, t.d. var þar horft til íbúa af erlendu bergi brotna.

 

Allt ber að sama brunni, í litlu samfélagi er hægt að ná lengra með auknu samstarfi, ekki síst þar sem hagsmunir fara saman, eins og dæmin sanna. Það felst í tækifæri að fá þessa fjölmörgu aðila að samstarfi um setningu fjölskyldustefnu.

 

Hvað er fjölskyldustefna?

Í fjölskyldustefnu kemur fram áætlun um það, hvernig við getum með þjónustu stofnana og ýmsum úrræðum sem við búum yfir eða viljum skapa, stutt við íbúa á mismunandi aldursskeiðum. Ennfremur hvernig aukið samstarf/samráð aðila getur leitt til þess sama. Það liggur í augum uppi að fjölskyldur eru mismunandi; það er ekki bara verið að tala um barnafjölskyldur, heldur alla aldurshópa og þar með alla íbúa.

Þó að fyrrgreind þingsályktunartillaga hafi gengið út frá því að það væru sveitarstjórnir sem settu sér fjölskyldustefnu, þá er ekkert sem segir að ekki megi kalla fleiri aðila að umræðunni. Það er einmitt ætlunin að gera og leita eftir sjónarmiðum stofnana, félagasamtaka og íbúanna um það hvernig við getum í sameiningu styrkt stöðu fjölskyldunnar og skapað enn fjölskylduvænna umhverfi. Vonandi verður fjölskyldustefnan sameiginleg yfirlýsing margra ólíkrar aðila, ekki bara bæjarins.  

 

Vinna við mótun fjölskyldustefnu

Bæjarstjórn skipaði í sumar nefnd til að vinna að mótun fjölskyldustefnu og hefur hún hafið störf. Í henni eru tilnefndar af bæjarstjórn Dóra Aðalsteinsdóttir, Unnur Birna Þórhallsdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir, auk þess sem undirrituð starfar í nefndinni. Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var við endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins, samþykkt samhljóða að veita fjármagni til að ráða starfsmann nefndinni til aðstoðar. Það er Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ráðgjafarfyrirtækinu ALTA sem hefur tekið að sér að starfa fyrir nefndina. Hennar hlutverk verður að skipuleggja vinnu nefndarinnar, kalla aðila að starfinu og halda utan um verkið. Markmiðið er að fjölskyldustefna Grundfirðinga verði ekki bara falleg orð á blaði, heldur raunhæf markmið um hvernig stuðla megi að bættum hag fjölskyldna í Grundarfirði. Meira um þetta síðar.

 

 

Björg Ágústsdóttir

bæjarstjóri