Á vegum Grundarfjarðarbæjar er hafin vinna við mótun fjölskyldustefnu Grundfirðinga. Ætlunin er að fá að þeirri vinnu stofnanir í bænum, hagsmunaaðila og sem flesta íbúa. Á íbúaþingi í mars sl. var safnað ýmsum gagnlegum upplýsingum sem nefnd um mótun fjölskyldustefnu vinnur úr og nú er komið að því að horfa enn frekar fram á veginn á fundi miðvikudagskvöldið 30. nóv. n.k. 

 

Frá íbúaþingi í mars 2005

En hvað er fjölskyldustefna? Ekkert annað en áætlun þeirra aðila sem að henni munu standa um það hvernig við ætlum með raunhæfum leiðum að styðja enn betur við bakið á fjölskyldum í bænum. Við fjölskyldumeðlimi á öllum æviskeiðum, við misjafnar aðstæður.

Allir eru í fjölskyldu!

Hafi einhver haldið að hægt sé að afgreiða fjölskyldustefnu sem einhvern ,,mjúkan pakka” sem ,,hinir” eða ,,aðrir” geti haft skoðanir á, þá er það misskilningur. Í fjölskyldum eru t.d. ekki bara konur og börn. ,,Fjölskylda” er 75 ára karlmaður sem býr einn – málefni eldri borgara koma örugglega við sögu við mótun fjölskyldustefnu. ,,Fjölskylda” getur líka staðið saman af feðgum sem búa saman, eða ömmu og barnabarni, o.s.frv. Sem sagt: málefni sem koma okkur öllum við.

Hvað getur komið út úr fjölskyldustefnu? Nokkur dæmi:

Í Garðabæ var ákveðið í fjölskyldustefnu að skólar bæjarins myndu samræma upphaf og lok skólaárs, vetrarleyfi, starfsdaga kennara og aðra frídaga nemenda.

Þar var einnig samþykkt að tryggja öldruðum aðgengi að íþróttamannvirkjum bæjarins, að skapa góða aðstöðu við útivistarsvæði eins og grillaðstöðu og leiktæki, og vinna að merkingu gönguleiða, náttúruminja og örnefna og uppsetningu upplýsingaskilta.

Reykjanesbærgekkst fyrir námskeiðum fyrir foreldra um aga og uppeldi, n.k. ,,Super- nanny”-námskeið, til að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Á Húsavík var kosið þriggja manna unglingaráð, frá grunn- og framhaldsskólanum, sem  fjallar um þau málefni á vegum sveitarfélagsins sem varða börn og unglinga. 

Og þannig mætti áfram telja. Hvað viljum við setja í okkar fjölskyldustefnu? Að hverju er raunhæft að vinna og hvernig?

Í nefnd um mótun fjölskyldustefnu sitja Dóra Aðalsteinsdóttir, Garðar Svansson, Unnur Birna Þórhallsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og undirrituð. Eftir fundinn mun nefndin vinna úr niðurstöðum, ásamt fleiri gögnum, og skipa vinnuhópa til áframhaldandi starfs um einstök atriði.

Ég hvet alla til að mæta á opinn fund þann 30. nóvember n.k. þar sem leitað verður eftir því sem helst brennur á íbúum varðandi málefni fjölskyldunnar og reynt verður að draga fram áherslur og forgangsraða.

 

 

F.h. nefndar um mótun fjölskyldustefnu,

Björg Ágústsdóttir

bæjarstjóri