Sunnan við bæinn Eiði er Arnór Kristjánsson bóndi að gera all nýstárlega tilraun. Þannig hagar til að tjaldshjón hafa til nokkurra ára átt búsetu á malareyri sunnan við bæinn og um sjötíu metra frá sjónum. Þetta mun vera í a.m.k. þriðja eða fjórða skipti sem tjaldurinn verpir á sama stað. Undanfarin vor hefur hreiðrið ýmist farið á kaf á háflóði eða tófan stútað eggjunum í því og uppeldi tjaldshjónanna því misfarist.

Í gær var stórstreymt og þótti Arnóri bónda fyrirséð að flæða myndi yfir hreiðrið að óbreyttu því flóðhæð verður þarna yfir fjórir metrar. Ákvað Arnór því að setja frauðplastsplötu við hreiðurstæðið sem fest er með bandi við jarðfastan tein og færði hreiðrið í skál sem hann gerði í plötuna. Þessum tilfæringum tók tjaldurinn afar vel og lagðist á eggin sín fjögur eins og ekkert hefði í skorist, enda hreiðurstæðið vafalaust hlýrra og notalegra eftir breytinguna. Sverrir Karlsson ljósmyndari tók meðfylgjandi mynd meðan Arnór var að koma hreiðrinu fyrir og fylgdist með í gær þegar háflóð var í Kolgrafafirði.

Frétt af vef Skessuhorns, www.skessuhorn.is