Út er komið ritið Fólkið, fjöllin, fjörðurinn, 5. bindi. Ritið er gefið út af Eyrbyggjum, hollvinasamtökum Grundarfjarðar og hefur komið út árlega síðan árið 2000. Efni ritsins hefur jafnan verið í takt við undirheiti þess; safn til sögu Eyrarsveitar, þar sem birst hefur ýmis fróðleikur tengdur fólki og viðburðum hér í sveit, greinar, ljósmyndir, viðtöl, skrár o.fl.

 

Í ár er að finna í ritinu umfjöllun Inga Hans Jónssonar um Bæringsstofu – ljósmyndasafn Grundfirðinga og samantekt áhugaverðra ljósmynda Bærings heitins Cecilssonar, en fjölskylda Bærings færði Grundarfjarðarbæ að gjöf allt safn og muni hans þann 24. mars 2003.

Haukur Jóhannesson ritar Yfirlit um jarðfræði Snæfellsness, birtar eru gamlar fermingarmyndir og manntal Eyrarsveitar árið 1940 sem Elínbjörg Kristjánsdóttir Eyrbyggi hefur unnið upp úr skjölum frá Þjóðskjalasafninu. Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur rekur sögu sóknarpresta Eyrsveitunga á liðnum öldum og birt er grein eftir sr. Magnús Guðmundsson, sóknarprest 1954-74, sem birtist upphaflega í Kirkjuritinu 1985 og ber heitið Um kirkjur og kirkjurækni í Eyrarsveit. Hermann Breiðfjörð Jóhannesson Eyrbyggi ritar hugleiðingu um æskuslóðir og Eyrbyggja, að fornu og nýju og birt er ritgerð um Kvíabryggju, unnin af Bjarna Sigurbjörnssyni og Birgi Guðmundssyni er þeir stunduðu nám í Fangavarðaskólanum. Í ritinu er að finna ljóð eftir Árna Hallgrímsson frá Vík og bæjarstjóri ritar um málefni Grundarfjarðarbæjar í annál ársins 2003.

 

Freyja Bergsveinsdóttir hannaði kápu en ljósmynd á kápu, loftmynd af Kirkjufelli með bæinn í baksýn, er eftir Ragnar Th. Sigurðsson.

 

Ritið Fólkin, fjöllin, fjörðurinn – 5. bindi, er til sölu hjá Hermanni Jóhannessyni Eyrbyggja (s. 898 2793) og í Hrannarbúðinni, Grundarfirði (s. 438 6725).

 

Fyrir hönd bæjarstjórnar og Grundfirðinga allra færir bæjarstjóri stjórn Eyrbyggja innilegar þakkir fyrir frábært framtak, nú sem fyrr, við útgáfu ritsins, sem er bæði mjög tímafrek og vandasöm. Þau eiga þakkir skildar!

 

Í formála Bjarna Júlíussonar, formanns stjórnar Eyrbyggja, segir m.a.: „En verðmæti ritsins liggur auðvitað fyrst og fremst í þeim fróðleik sem hér er haldið til haga, í þeim upplýsingum sem við náum að varðveita og geyma. Við þurfum svo sannarlega að vera vakandi í því að halda áfram að safna slíkum gögnum, skrá merka atburði sem enn eru lifandi í minni eldri Grundfirðinga, sagnir, örnefni og annan þann fróðleik sem fólkið okkar býr yfir. Það er nefnilega býsna fljótt að fenna í sporin og ef ekki er gætt að þá kann mikil saga að glatast.“

 

Hægt er að taka heilshugar undir þessi orð Bjarna um gildi þess að skrásetja og varðveita fróðleik, sem eldri kynslóðir búa yfir og víst er að ekki mun verða okkur aðgengilegur til eilífðarnóns. Oft hefur þetta borið á góma, m.a. í samtölum við Eyrbyggjana. Bæjarstjóri leyfir sér í þessu samhengi að varpa fram hugmynd um að Grundfirðingar (Eyrbyggjar allra tíma!) leggi árlega í ákveðna vinnu við að taka viðtöl, skrásetja og safna fróðleik með skipulegum hætti, sem t.d. gæti verið verkefni fyrir duglega háskólanema. Um kostnað ætla ég ekki að fjölyrða, við myndum reyna að finna út úr því. Til umhugsunar......!