Kæru íbúar!

Þetta eru sannarlega ótrúlegir tímar sem nú eru runnir upp. Eins og fram hefur komið verður sett á fjögurra vikna samkomubann í landinu frá og með mánudeginum 16. mars nk. Með því er ætlunin að draga úr faraldrinum og þannig minnka álag á heilbrigðiskerfið.

Stjórnendur hjá Grundarfjarðarbæ vinna nú að því að skipuleggja starfsemina með tilliti til þessa og íslensk sveitarfélög samræma ráðstafanir í starfi leik- og grunnskóla. Þangað til nýtt fyrirkomulag hefur tekið gildi, vinnum við hjá Grundarfjarðarbæ eftir viðbragðsáætlun sem sett var sl. þriðjudag og nánari aðgerðaáætlun frá því í gær.

 

 Mánudaginn 16. mars nk. verður starfsdagur í leik- og grunnskóla, auk tónlistarskóla. Íþróttir barna og unglinga liggja sömuleiðis niðri þann dag. Það er gert til að skólarnir nái að skipuleggja starfsemi sína og ráðstafanir til næstu vikna.

Íþróttir fullorðinna leggjast af í húsinu frá og með deginum í dag, þar til annað verður ákveðið.

Við munum eins fljótt og auðið er miðla frekari upplýsingum og leiðbeiningum.

Ég hvet íbúa til að sýna þessu vandasama viðfangsefni mikla virðingu. Enn hefur ekkert smit greinst á Vesturlandi. Við þurfum að gæta mikillar varkárni í samskiptum og fara í einu og öllu að fyrirmælum fagfólks. Það er í okkar höndum að lágmarka áhrif þessa faraldurs.

Ég biðla til ykkar, kæru íbúar, um að við hjálpumst að á þessum óvenjulegu tímum. Þekkjandi mitt heimafólk er ég sannfærð um að það munum við einmitt gera.

Og gleymum ekki gleðinni - þrátt fyrir allt. Hún er mikilvægur förunautur.

Grundarfirði, 13. mars 2020 

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri