Hafnarframkvæmdir við Norðurgarð, 1. apríl 2020.
Hafnarframkvæmdir við Norðurgarð, 1. apríl 2020.

Kæru íbúar! 

Í dag voru 30 manns í sóttkví í Grundarfirði, tveimur fleiri en í gær, en fjöldi smita óbreyttur. Alls eru 453 í sóttkví á öllu Vesturlandi og 30 smit, tveimur fleiri en í gær. 

Viðfangsefni dagsins 

Hjá Grundarfjarðarbæ er einungis fundað á fjarfundum núna, auk þess sem tæknin er nýtt til að eiga ýmis samtöl og samskipti sem áður fóru fram í eigin persónu. Fundir dagsins varpa ljósi á viðfangsefnin þessa dagana. 

Uppúr hádegi var fundur forstöðumanna stofnana bæjarins, sem mynda svokallað viðbragðsteymi, samkvæmt viðbragðsáætlun bæjarins. Við fundum ca. tvisvar í viku og förum stuttlega yfir stöðu mála hjá hverri stofnun, auk þess sem við ræðum atriði sem snerta allar stofnanir og starfsemi bæjarins. Í dag ræddum við um verkefni starfsfólks við breyttar aðstæður og um ráðningar í sumarstörf sem hefjast eiga í maí, þegar við vitum ekki enn hvort samkomubann verður að fullu afstaðið. Það færir okkur enn fleiri áskoranir, en koma tímar, koma ráð. 

Við Þurí á bæjarskrifstofunni funduðum um miðjan dag með nokkrum fulltrúum sem vinna með börnum og ungmennum, þ.e. frá leik- og grunnskóla, félagsmiðstöð og UMFG. Umfjöllunarefnið var börn og ungmenni, helstu leiðbeiningar, upplýsingar og fræðsluefni - og tækifæri á tímum kórónaveiru. 

Aðrir fundir og samskipti mín í dag voru m.a. við lögreglu, við Heilbrigðisstofnun Vesturlands, við samstarfsfólk, m.a. um verkefni á sviði byggingarfulltrúa, heimasíðu og upplýsingagjafar, um verkframkvæmdir, starfsmannamál, nýju kjarasamningana og margt fleira. Mikill hluti verkefna snýst um eða tekur mið af því óvenjulega ástandi sem nú er uppi. Vaxandi hluti er þó vegna hinna daglegu og hefðbundnu verkefna, sem aftur þarf að snúa sér að og halda boltunum á lofti, burtséð frá veiru og sóttvörnum. 

Bæjarstjórnarfundur í næstu viku

Seinnipartinn í dag áttu bæjarfulltrúar stöðu- og upplýsingafund á netinu, þar sem ég fór yfir stöðuna hjá stofnunum bæjarins, starfsemi og viðfangsefni. Við ræddum um fundi og verkefni framundan, en í næstu viku verður m.a. bæjarstjórnarfundur. Þar mun bæjarstjórn taka til umræðu þá stöðu sem nú er uppi og ráðstafanir sem hún mun grípa til vegna hennar, til viðbótar við það sem þegar hefur verið gert. Flestar sveitarstjórnir eru þessa dagana að ræða ráðstafanir til stuðnings fyrirtækjum sem lenda í vanda vegna áhrifa veirufaraldursins. Til hliðsjónar í þeirri umræðu eru tillögur og hugmyndir Sambands íslenskra sveitarfélaga, en sveitarfélögin reyna að fylgjast að í sinni nálgun og njóta bakgrunnsvinnu Sambandsins við það. 

Eins og heimurinn hinkri aðeins við … 

Þýska heilbrigðisráðuneytið gaf út að í ár væri bannað að gera aprílgabb sem snerist um kórónavírusinn. Mikilvægt væri að dreifa ekki fölskum eða villandi fréttum, sem snerust um vírusinn og ástandið - nóg væri nú samt af slíkum fréttum. 

Í fallegu jólalagi syngur Pálmi Gunnarsson texta Ólafs Gauks, Yfir fannhvíta jörð, sem fjallar um helgi jólanna, þegar mjúk logndrífa fellur á grund. Þá er "eins og heimurinn hinkri aðeins við, haldi niðrí sér anda um stund", segir í textanum. 

Hefði einhver sagt okkur fyrir akkúrat ári, hvernig staðan yrði 1. apríl 2020, ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum öllum, þá hefði okkur fundist það ýkt aprílgabb. Að heimurinn hefði raunverulega “hinkrað við” og “héldi niðrí sér andanum - um stund”, með þeim hætti sem við upplifum nú, hefði okkur þótt með mestu ólíkindum! 

Áfram höldum við þó - gerum okkar besta og vinnum þetta á seiglunni og samstöðunni! Og - með því að halda okkur heima!

Björg