Grundarfjörður, 1. maí 2020.
Grundarfjörður, 1. maí 2020.

Kæru íbúar! 

Til hamingju með daginn! 

Fyrsti maí er alþjóðlegur bar­áttu­dagur verkafólks og á sér rætur allt aftur til ársins 1889. Valið á þessum degi fyrir þennan málstað á sér ýmsar sögulegar skírskotanir. Í heiðnum sið var 1. maí táknrænn fyrir breytingar, þ.e. endalok vetrar og upphaf sumars. Barátta genginna kynslóða, víða um heim, hefur sannarlega skilað okkur nútímafólki margvíslegum samfélagsbreytingum. Hér á landi var fyrsta kröfu­gangan gengin þann fyrsta maí 1923 og frá 1966 hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi. Það segir mikið um það hve sögulega tíma við lifum, nú árið 2020, að í fyrsta sinn í um og yfir hundrað ár, í fjölmörgum löndum, safnast fólk ekki saman á fyrsta maí. Takmarkanir á samkomuhaldi vegna sóttvarna valda því. 

Þróun sjúkdómsins og árangur

Það er virkilega gleðilegt að útbreiðsla Covid-19 sé í þeirri rénun sem tölur landlæknis sýna. Í tíu daga hafa engin smit greinst á Vesturlandi og aðeins einn er í einangrun á landsvæðinu. Sjö manns eru í sóttkví á Vesturlandi öllu, þar af þrír hjá okkur í Grundarfirði. Eitt smit greindist á landinu í gær og síðustu sjö daga hafa samtals níu smit greinst. 

Það er árangur heildarinnar sem hér býr að baki og ástæða til að við hrósum hvert öðru og þökkum fyrir aðgerðir heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisstarfsfólks og almannavarna í baráttunni við sjúkdóminn, með góðri þátttöku okkar - almennings - með margvíslegu móti.

Skimanir á Vesturlandi

Alls hafa yfir 450 sýni verið tekin á Vesturlandi frá upphafi. Nú er beðið eftir niðurstöðum úr stórri skimunarrannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sem fram fór á Akranesi og í Borgarnesi í vikunni. Ennfremur er fyrirhuguð skimun í samstarfi ÍE og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi 6. og 7. maí nk. og í undirbúningi er skimun í Grundarfirði og Ólafsvík. Þessar skimanir eru mjög umfangsmiklar og leitað verður til sjálfboðaliða á stöðunum um aðstoð við frágang sýna, stjórnun á aðkomu, spurningaferli og skráningu. Við fáum frekari fréttir af þessu á næstu dögum. 

Tilslakanir á samkomubanni 4. maí nk.

Fyrstu skref í átt til þess að slaka á takmörkunum vegna Covid-19 verða stigin mánudaginn 4. maí nk. í samræmi við auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, frá 21. apríl sl. Auglýsingin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. 

Þá verður almenna reglan sú að 50 manns mega koma saman í stað 20 áður á fjöldasamkomum, í almenningsrýmum, almenningsvögnum og heimahúsum. 

Áfram gildir þó að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2ja metra fjarlægð á milli einstaklinga sem ekki deila heimili. 

Ýmis þjónustustarfsemi má hefjast að nýju, t.d. hjá læknum, tannlæknum og sjúkraþjálfurum, nuddstofum, snyrti- og hárgreiðslustofum og í sambærilegri starfsemi. Þó skal gætt að því að 2ja metra fjarlægð sé á milli viðskiptavina, gætt að sótthreinsun og þrifum. 

Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi. 

Skólastarf

Mánudaginn 4. maí falla alveg niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum landsins og skólastarf færist aftur nokkurn veginn í fyrra horf. Þetta gildir í grunnskólanum út maí, fram til skólaslita, og í leikskólanum fram að sumarleyfi í lok júní, að því gefnu að ekki komi bakslag í baráttuna við faraldurinn.  

Í grunnskólanum hættum við núna að hópaskipta nemendum og starfsfólki og skólahald í íþróttahúsi leggst af. Allar greinar verða nú aftur á stundaskrá og skólasund hefst mánudaginn 4. maí. Heilsdagsskólinn opnar sömuleiðis. Sjá nánar hér í auglýsingu skólans.

Leikskólinn hættir einnig að hópaskipta börnum og starfsfólki og hættir að nýta samkomuhúsið. 

Tónlistarskólinn fer sömuleiðis með skólahald í fyrra horf. Hóptímar verða nú aftur á sínum stað. Nemendur eldri en 16 ára, sem og starfsfólk, þarf að virða 2ja metra regluna.

Það verður þó ekki allt eins og það var áður. Áfram verðum við að virða 2ja metra fjarlægðarmörk milli fullorðinna, þ.e. starfsfólk sín á milli og aðrir fullorðnir sem eiga erindi í skólana. Við takmörkum áfram komur fullorðinna eftir því sem það er unnt. Skólaslit og vortónleikar verða ekki með hefðbundnum hætti í vor.

Hreinlæti verður áfram í hávegum haft. Aukin þrif, sótthreinsun á helstu snertiflötum, handþvottur og sprittun.

Ef þess þarf þá breytum við fyrirkomulagi, með öryggi allra að leiðarljósi, eins og fram kom í góðum pósti leikskólastjóra til foreldra í vikunni. Við reiðum okkur áfram á gott samstarf við foreldra og nemendur og sjáum hvernig þetta gengur.

Íþróttastarf 

Þann 4. maí verða ekki heldur fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Hjá þeim sem eru eldri, eru fjöldatakmarkanir og 2ja metra reglan áfram í gildi. 

Íþróttaæfingar hefjast á vegum UMFG að nýju fyrir börn. Æfingar í blaki, fimleikum, fótbolta, frjálsum og körfubolta fyrir börn og unglinga hefjast aftur mánudaginn 4. maí skv. stundatöflu.

Engar æfingar verða fyrir 16 ára og eldri í íþróttahúsinu. Allar fótboltaæfingar félagsins verða á sparkvellinum til að byrja með. Í stubbaboltanum geta foreldrar ekki verið áhorfendur á æfingum. Ekki verður heldur íþróttaskóli hjá yngstu iðkendunum þar sem félagið getur ekki tryggt 2ja metra fjarlægð milli foreldra, eins og fyrirkomulagið er í þeim tímum. 

Við megum ekki missa tökin 

Það er eðlilegt að okkur sé létt nú þegar smit eru á niðurleið og losað verður um hömlur á samkomum. Þetta er mjög ánægjuleg þróun mála, en það er þó mikilvægt að muna að baráttunni er alls ekki lokið. Okkur er sagt að veiran geti auðveldlega blossað upp aftur. Við þurfum því áfram að sýna mikla aðgát.

Virðum góðar leiðbeiningar landlæknis og almannavarna sem áfram eru í fullu gildi:  

  • Við þvoum hendur reglulega og vel, með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti.

  • Við takmörkum náin samskipti við annað fólk, engin handabönd og faðmlög - tveggja metra fjarlægðarreglan er áfram okkar regla.  

  • Við forðumst mannamót og fjöldasamkomur, sérstaklega eldra fólk og þau sem hafa sjúkdóma eða eru veik fyrir. 

  • Við virðum sóttkví og þær reglur sem okkur er skylt að fara eftir,  sem og einangrun, og nauðsynlegar eru til að hægja á útbreiðslu.

  • Ef við sýnum einkenni sem minna á flensu, þá forðumst við að vera innan um aðra og gætum aukins hreinlætis. 

Okkur hefur tekist ótrúlega vel upp hér á landi á skömmum tíma, með áhlaupi. Kannski erum við líka soldið góð í því Íslendingar; að kýla á hluti og koma þeim frá - og snúa okkur svo að öðrum verkefnum. En hér erum við í langhlaupi, ekki spretthlaupi. Það mun taka tíma að vinna á þessari farsótt, rétt eins og gildir um mörg önnur heilsufarsvandamál. Þetta kom fram á fréttafundi dagsins, sem mér fannst sérstaklega góður.

Í mjög góðu innleggi Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, ræddi hann um þolgæði einstaklinga og samfélaga. Geðheilbrigðisfræðin hafa beint sjónum æ meira að þolgæði sem mikilvægum eiginleika. Öll lendum við í erfiðleikum og áföllum einhvern tímann á ævinni, en bregðumst á mismunandi hátt við þeim. Þolgæði er það að vera þrautseig, að sýna seiglu, að bogna en brotna ekki við mótlæti. Þolgæði snýst ekki bara um að þrauka, heldur að þola og komast í gegnum erfiðleika, að muna markmiðið sem að er stefnt og hafa þolinmæði til að vinna að því. Páll sagði: 

“Hæfileiki einstaklinga til að sýna þolgæði og þrautseigju er ekki fasti, ekki eitthvað óbreytanlegt, heldur breytilegur. Í grunninn höfum við ákveðinn persónuleika en síðan skipta viðhorf okkar til erfiðleikanna miklu máli, það hvort við skiljum ástæðu þeirra og hvort við sjáum í þeim tilgang. Það má síðan ekki gleyma því að það umhverfi sem við búum við er gríðarmikilvægt, jafnvel mikilvægara en það hversu sterk við erum sjálf í grunninn því enginn er eyland. Stuðningur fjölskyldu, vina og síðan velferðarkerfisins, þess opinbera kerfis sem við höfum sett upp til að styðja við hvert annað á erfiðum tímum, allt þetta er ekki síður hluti af þolgæði okkar og seiglu sem samfélags heldur en hver einstaklingur.”

Nú er það okkar að sýna þolgæði - að missa ekki sjónar á því markmiði að við ætlum að hafa betur í baráttunni við farsóttina. Það mun kosta okkur þolinmæði og athygli. Að styðja hvert annað, í að þola og muna (og missa ekki gleðina) er okkar hlutskipti næstu mánuðina. Slíkir tímar reyna á okkur en þeir laða líka fram það góða og sterka, í einstaklingum og samfélögum. Það er líka gott að minna okkur á, að undangengnar kynslóðir hafa þurft að takast á við farsóttir og mikla erfiðleika, en engin þeirra hefur haft jafn góðar aðstæður til þess og við. 

Björg