Stöðin og Lárvaðall, séð af Mýrarhyrnu, 8. apríl 2020. Lárvaðall að hluta til ísi lagður og ofan frá…
Stöðin og Lárvaðall, séð af Mýrarhyrnu, 8. apríl 2020. Lárvaðall að hluta til ísi lagður og ofan frá séð eins og hann sé hjartalaga. Mynd: Hermann G.

Kæru íbúar! 

Að loknu páskafríi virðist eins og vorið sé rétt handan við hornið! Hitastigið er að hækka, snjóinn hefur tekið enn meira upp og skógarþrösturinn er farinn að syngja sín kunnuglegu ljóð. Og svo er sumardagurinn fyrsti eftir viku! Yfir því má nú aldeilis gleðjast. 

Þau rokka sem plokka! 

Annar augljós “vorboði” er ruslið sem kemur í ljós þegar bærinn okkar fer úr vetrarbúningnum. Það myndi breyta heilmiklu ef við tækjum nú höndum saman og færum einn “ruslahring” um okkar nánasta umhverfi, tíndum rusl af lóðinni okkar og nánasta umhverfi, hvert og eitt okkar sem vettlingi getum valdið. Við eigum þennan bæ saman og það er svo mikill munur þegar við hjálpumst að við að gera fínt. Er það ekki bara góð hreyfing og útivera að skella sér út í smá “plokk”? 

Annars eru vorverkefnin hafin hjá áhaldahúsi og stofnunum bæjarins og sumarverkefnin í undirbúningi. Meira síðar um það. 

Staðan á veirunni 

Nýjustu tölur segja ástand óbreytt í Grundarfirði hvað varðar smit. Enginn er í einangrun og nú eru einungis 6 í sóttkví. Á Vesturlandi eru 41 í sóttkví og hefur fækkað mjög. Alls hafa 40 smit greinst á Vesturlandi, þar af eru nú 11 í einangrun sem þýðir að 29 hafa náð bata. 

Annars má finna daglegar tölur á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi

Skref til að aflétta sóttkví í byrjun maí 

Eins og fram kom í fjölmiðlum í fyrradag, 14. apríl, hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fara að tillögu sóttvarnalæknis um næstu skref við að slaka á takmörkunum á samkomum og skólahaldi. 

Sóttvarnalæknir lagði til að slakað yrði á takmörkunum í skrefum sem endurskoðuð verði með þriggja til fjögurra vikna millibili. Ástæðan er sú að þó faraldurinn sé nú í rénun, þá skapist hætta á að hann blossi upp aftur ef slakað verður um of á gildandi takmörkunum. 

Í fyrradag voru kynntar þær breytingar sem felast í næstu skrefum og taka munu gildi 4. maí nk. 

Opnað verður fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum, unnt verður að opna framhalds- og háskóla á ný með takmörkunun, heimilt verður að hefja á ný ýmsa þjónustu, s.s. á hárgreiðslu- nudd- og snyrtistofum og hjá tannlæknum og söfn mega einnig opna á ný. Mikilvægt er þó að áfram munu gilda fjöldamörk samkomubanns, þó þannig að þau verða hækkuð úr 20 í 50 manns og 2ja metra fjarlægðarmörk gilda áfram. 

Það er gleðilegt og gott að sjá fram á þennan áfanga. Það eykur bjartsýni og hjálpar okkur að skipuleggja ýmislegt fram í tímann. Hins vegar eiga frekari leiðbeiningar þó eftir að koma fram um útfærslur fyrir ýmsa starfsemi. Mikilvægt er áfram að taka einn dag í einu. 

Ég hef rætt þetta m.a. við leikskólastjóra og við erum sammála um að við munum ekki geta hoppað beint inní fyrirkomulag eins og var fyrir Covid. Við munum skoða þetta vel, undirbúa og kynna tímanlega. Við fylgjum sem fyrr, þeim leiðbeiningum sem yfirvöld og sérfræðingar þeirra gefa okkur. 

Gætum fyllstu varúðar - missum ekki góðan árangur niður! 

Með vorkomu og góðum fréttum af því að dregið hafi úr nýsmitum af völdum Covid-19 undanfarna daga, og með umræðu um afléttingu takmarkana í byrjun maí, þá er nú umtalsverð hætta á að við verðum of værukær. Við þráum að eiga góðar stundir með vinum og kunningjum, nýta góða veðrið þegar það gefst og slaka á - skiljanlega. En við erum ekki “þar” ennþá - sigur er ekki unninn á veirunni. Enn hefur ekki verið dregið úr þeim ráðstöfunum sem hafa verið í gildi og takmarkanir á samkomum og skólahaldi eru enn óbreyttar. 

Við erum beðin um að sýna áfram mikla varúð, eins og síðustu vikur. Við þurfum enn um sinn að draga verulega úr umgengni við aðra, passa uppá fjarlægðarmörkin, þvo hendur, spritta, hósta ekki útí loftið og allt sem áður er sagt, kennt og lært.  

Verum dugleg að minna okkur sjálf og hvert annað á þetta! Missum ekki góðan árangur niður! 

Hópamyndanir unglinga utan skóla 

Í tilkynningu frá Almannavörnum sem send var til sveitarfélaga í dag segir að borið hafi á því að unglingar hópist saman á leiksvæðum að kvöldlagi. Ég er ekki viss um að það eigi við hér, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Takmarkanir eru enn í fullu gildi í leik- og grunnskólum og strangar kröfur um fjölda og nálægð nemenda og starfsfólks til að takmarka krosssmit. Hópamyndanir utan skóla þarf enn að varast; skólafélagar sem eru ekki saman í hópi í skólanum ættu ekki að umgangast utan skóla. 

Foreldrar - minnum ungana okkar á þetta og stöndum saman! Við þurfum enn að gæta okkar þó við séum á réttri leið. 

Fellaskjól 

Í tilkynningu frá Fellaskjóli á Facebook-síðu heimilisins í dag kom fram nú megi koma með pakka, mat og föt til íbúa, en ítrekað að heimsóknarbann gildi áfram, þar á meðal í sólstofu. 

Breytingar á ferðum hjá Strætó 

Rétt er að vekja athygli á auglýsingu frá Strætó um breytingar á áætlunarferðum, sem tóku gildi 14. apríl og munu standa út maí. 

Þar segir að í ljósi þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur á samfélagið hafi Vegagerðin ákveðið að breyta áætlunum almenningsvagna (Strætó). Breytingin verði endurskoðuð með tilliti til aðstæðna og sumaráætlunar. Einnig segir að tímatöflur séu í vinnslu og komi réttar inn í kerfið 20. apríl. Þangað til verði breytingar auglýstar á vef Strætó þar sem fram komi hvaða tímaáætlun farið sé eftir.

Hægt er skoða tímatöflu nánar hér á vef Strætó: https://www.straeto.is/is/timatoflur/3 

Allt það góða! 

Þrátt fyrir erfiðleika og áhyggjur, sem tengjast heilsu og velferð fólks, og efnahagslegum áhrifum þessa ástands, þá eru líka jákvæðar hliðar, sem gott er að reyna að sjá og muna. 

Fólk er að sýna sínar bestu hliðar; gefa af sér, hjálpa og styðja á margvíslegan hátt. Þetta er fallegt, þetta er gott að finna og hvetjandi þegar hvatningar er einmitt þörf. Af mörgu er þar að taka. 

Yfir Páskadagana nutum við þess að fá heim í stofu til okkar messur úr Grundarfjarðarkirkju og Setbergskirkju, með frábæru framlagi sr. Aðalsteins, Lindu Maríu og Mána, auk fleiri. Allt fallega flutt og fagmannlega fram sett. 

Leshópurinn okkar, Köttur úti í mýri, heldur áfram að lesa fyrir íbúa á Fellaskjóli og okkur hin sem gefum okkur tíma til að hlusta. Hún Lilja Magnúsdóttir sá um lesturinn á annan páskadag, hér má hlusta. Og hún Elsa Björnsdóttir las lesturinn í dag - hér má hlusta. 

Á Facebook hefur verið stofnaður “Sönghópur” þar sem öllum er frjálst að leggja inn eigin söng undir formerkjunum “Syngjum veiruna burt”. 

Ef við leyfum okkur áfram að horfa á það jákvæða sem við getum tekið út úr erfiðleikunum, þá er líka algjörlega frábært að sjá hvað hægt er að breyta hratt þegar við verðum að finna nýjar leiðir. Aðstæður undanfarnar vikur hafa flýtt stórkostlega fyrir tæknilegum breytingum, jafnvel umbyltingu, hjá fjölmörgum stofnunum ríkis og sveitarfélaga, sem og hjá mörgum fyrirtækjum. Breytingin felst í aukinni tæknilegri getu til að eiga samskipti yfir netið. Þessi geta var víða ekki fyrir hendi áður, a.m.k. ekki með sama hætti. Ekki síst felst breytingin í hugarfari. Það sem ekki var áður hægt að gera, er nú leyst með “fjar-lausnum” ýmiss konar. Fyrir okkur landsbyggðarfólk er sérstaklega mikilvægt að slíkar breytingar viðhaldist og að ýmis þjónusta, fundir og annað sem við höfum hingað til þurft að sækja til höfuðborgarinnar, megi leysa með aðstoð tækninnar og réttrar þekkingar, yfir netið. Slíkt er öllum til hagsbóta. Meira svona - og takk! 

Björg