18. apríl 2020: Snjókoma í Grundarfirði. Mynd úr skógræktinni.
18. apríl 2020: Snjókoma í Grundarfirði. Mynd úr skógræktinni.

Kæru íbúar! 

Það eru engin ný smit á Vesturlandi. Samtals hafa 40 greinst smitaðir, en 11 eru nú í einangrun, sem þýðir að 29 hafa fengið bata. Í sóttkví á Vesturlandi öllu eru nú 34 manns, þar af 3 hjá okkur. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi. 

Faraldur í niðursveiflu 

Það er gleðilegt að heyra að faraldurinn sé nú í mikilli niðursveiflu, eins og fram kom hjá sóttvarnalækni á fréttafundi dagsins. Við erum öll almannavarnir og getum klappað okkur á bakið fyrir að sinna því sem að okkur var beint; að halda okkur heima og fylgja öðrum leiðbeiningum til að verjast smitum. Það er hluti af árangrinum og ákaflega mikilvægur. Enn er samt þörf á að við leggjum okkur fram og fylgjum leiðbeiningum. Þó vel gangi, þá er þetta alls ekki búið! 

Þetta snýst ekki endilega um okkur sjálf! 

Í færslu á Facebook-síðu sinni í dag skrifaði Una Ýr Jörundsdóttir um stöðuna. Með hennar leyfi vitna ég orðrétt í hluta þess sem hún sagði: 

"Ég hef legið á gjörgæslu í öndunarvél eftir alvarlega heilahimnubólgu í desember 2012. Ég hef verð í einangrun í marga daga á Landspítalanum með engar ónæmisvarnir eftir háskammtalyfjameðferð og stofnfrumuígræðslu í apríl 2016 en ég greindist ég með ólæknandi krabbamein, mergæxli (e. Multiple Myeloma) í ágúst 2015. Ég hafði aldrei miklar áhyggjur af að ekki færi vel þegar ég var í erfiðri lyfjameðferð og var í einangrun. Ég hafði fulla trú á læknum og heilbrigðisstarfsfólki og að þau vissu hvað þau voru að gera og hvaða meðferð í mínum veikindum væri best. 

Mergæxli er ónæmisbælandi sjúkdómur, ég er ekki laus við hann og verð aldrei. Ég tilheyri hópi þeirra sem er í meiri áhættu en aðrir smitist ég af Covid-19. Ég er samt ekki í hópi þeirra verst stöddu. [...]
Núna er heimurinn að takast á við sjúkdóm sem hefur ekki komið upp áður. Það er ekki vitað hvaða meðferð er best. Það er ekki til bóluefni. 

Ég vil ekki smitast. Ef ég smitast þá get ég nokkurn veginn gengið út frá því sem gefnu að ég yrði lögð inn á sjúkrahús. Ég vil ekki láta reyna á það hversu alvarlega veik ég gæti mögulega orðið ef ég smitast.
Hver dagur sem líður færir okkur nær því að bóluefni verði tilbúið og læknar og vísindamenn viti meira um sjúkdóminn. Reynum að halda smitum í lágmarki á meðan með því að fylgja fyrirmælum. Þetta er ekki nærri því búið.

Ég er búin að vera í sjálfskipaðri sóttkví síðan viku fyrir samkomubann og mun halda því áfram að mestu leyti. Ég verð að treysta því að þegar ég fer út úr húsi og er innan um ókunnugt fólk að það séu allir að passa sig. Það þurfa allir að halda áfram að þvo sér oft og vel um hendur og virða 2 metra regluna. Höldum áfram að vera dugleg og gleymum okkur ekki 4. maí."

Þetta er þörf og góð ábending hjá Unu. Það er nefnilega mikilvægt að muna, að þó við séum hraust og jafnvel “ekkert hrædd við þessa veiru” eins og ég hef heyrt fólk segja, þá snýst þetta ekki bara um okkur. Þetta snýst jafnvel meira um aðra en okkur - um þau sem við getum smitað. Kannski er það stóra áskorunin - að smitvarnir felast í því að við erum einmitt að leggja okkar af mörkum fyrir aðra, fyrir heildina. 

Unga fólkið þarf að gæta sín betur

Á fréttafundi gærdagsins, 18. apríl, var fólk á aldrinum 18-29 ára hvatt til að passa sig betur, en nærri 20% af þeim sem hafa fengið veiruna hérlendis eru á þessu aldursbili. Það þykir nokkuð mikið. Pössum okkur, kæra unga fólk - það kann að virðast erfitt, en endilega takmörkum umgang við aðra, tímabundið, gætum að 2ja metra reglunni, ekki lengur en 10-15 mínútur í einu, og - þvoum hendur!

Að koma skilaboðum til þeirra sem skilja síður íslensku 

Á fréttafundi gærdagsins komu fram áhyggjur af því að skilaboð um viðbrögð við veirunni væru mögulega ekki að skila sér nógu vel til íbúa af erlendum uppruna. 

Í baráttu við faraldur eins og þennan, þá skiptir gríðarlega miklu máli að skilaboðin komist greiðlega til allra íbúa, til að við séum fljót að tileinka okkur nýja hegðun, þ.e. fara eftir leiðbeiningum um smitvarnir. Tungumál má þá ekki verða hindrun. 

Rúmlega 21% íbúa Grundarfjarðarbæjar eru með erlent ríkisfang, eða 185 íbúar, skv. tölum úr Þjóðskrá í febrúar sl. Af þeim eru langflestir með pólskt ríkisfang eða 117 íbúar. Alls eru 28 íbúar með litháískt ríkisfang, 9 með þýskt og 9 með ítalskt ríkisfang, 8 eru frá Tékklandi, en færri, eða samtals 14, eru með ríkisfang nokkurra annarra landa. Þess ber að geta að allmargir þessara íbúa hafa búið hér lengi og skilja íslensku mjög vel. Svo því sé haldið til haga þá hafa sumir líka íslenskt ríkisfang, en Ísland er meðal þeirra ríkja sem heimilar tvöfalt ríkisfang. 

Vefurinn covid.is er á 8 tungumálum, auk íslensku. Hér er slóð á vefinn á pólsku, á litháísku, á ensku, á spænsku, á arabísku, á persnesku, á kúrdísku og taílensku. Ég bendi líka á frábæran vef Fjölmenningarseturs, en þar er að finna mjög mikið af gagnlegum upplýsingum um Ísland og íslenskt stjórnkerfi og nú m.a. sérstakar Covid-upplýsingar, líka um aðgerðir vegna atvinnuleysis af völdum Covid-19.  

Ef við þekkjum fólk sem við teljum að skilaboðin nái e.t.v. ekki til, reynum þá endilega að verða að liði. Við getum bent fólki á þessar upplýsingar eða reynt að finna aðrar leiðir til þess. 

Allir pistlar bæjarstjóra, eins og þessi hér, hafa verið þýddir á pólsku. Ef ekki er ástæða til þess núna - hvenær þá? Ég hvet þig, lesandi góður, eindregið til að deila þessum færslum, t.d. gegnum Facebook, eða senda slóð til að erlendra vina, vinnufélaga eða annarra sem þú telur að geti haft gagn af. Það gæti hreinlega forðað veikindum, hver veit?

Björg