Kæru íbúar!

Á góðum upplýsingafundi í dag fór bæjarstjórn yfir stöðu mála og ég sagði frá helstu aðgerðum bæjarins og því sem í bígerð er. Við fórum yfir skólastarfið og ræddum hvernig forgangslistar í skólastarfi virka (meira síðar um það). Við ræddum líka um leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um sorpmál á neyðarstigi almannavarna, um stuðning við viðkvæma hópa og hugmyndir og ábendingar Sambands íslenskra sveitarfélaga að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf, sem teknar verða fyrir á formlegum fundi bæjarstjórnar á næstunni. Farið var yfir fyrirhugaða fundi og líkleg fundarefni. Á fundi sínum þann 12. mars sl. ákvað bæjarstjórn að halda mætti fjarfundi hjá nefndum og ráðum, þegar breyting hefði verið gerð á sveitarstjórnarlögum. Nú hefur þeim lögum verið breytt tímabundið þannig að sveitarstjórnum er heimilt að halda fundi sína í fjarfundi. Það verður einmitt gert hjá bæjarstjórn og nefndum Grundarfjarðarbæjar á næstu vikum og þarfnast frekari undirbúnings. Allt nefndafólk hjá bænum mun nú fá leiðbeiningar um framkvæmd fjarfunda og fyrirkomulag.

Aðgerðaáætlun Grundarfjarðarbæjar - útgáfa 2 

Á morgun, 24. mars, tekur gildi endurskoðuð útgáfa af aðgerðaáætlun bæjarins. Fyrri útgáfa er frá 12. mars sl. Áætlunin tekur mið af hertum takmörkunum á samkomuhaldi, sem taka gildi nú á miðnætti. Í henni er búið að endurskoða kafla um þjónustu og opnunartíma stofnana bæjarins, fundarkaflinn hefur tekið breytingum og sitthvað fleira. Aðgerðaáætlunin verður birt á vef bæjarins. 

Þjónustugjöld 

Skólastarf og þjónusta hjá stofnunum hefur raskast að undanförnu og viðbúið er að hún geti breyst enn frekar á næstu vikum. Þetta kallar á uppgjör vegna innheimtra þjónustugjalda fyrir mars og ákvörðun um gjaldtöku í apríl. Meginviðmiðið er að ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem ekki er innt af hendi. Leiðrétt verður fyrir þjónustu sem skerðist á tímabilinu 16.-31. mars 2020, en að öðru leyti verður fyrirkomulag innheimtu í apríl kynnt á næstu dögum. 

Kjörbúðin - gerum betur í að breyta verslunarhegðun okkar! 

Í gær og í dag ræddi ég við verslunarstjórann í Kjörbúðinni okkar í Grundarfirði og forstjóra Samkaupa, sem reka Kjörbúðina. Það var bæði fróðlegt og nauðsynlegt að heyra það sem þeir höfðu að segja, auk þess sem ég vildi ræða við þá um hvernig hægt verði að bregðast við ef t.d. margir í byggðarlaginu munu ekki komast í búð, eins og dæmi eru um frá Hvammstanga og Vestmannaeyjum, þar sem fjöldi fólks er í sóttkví. Það er betra að fara yfir þetta núna, til öryggis, en þetta er í skoðun. 

Það sem ég vil nefna, eftir samtalið við verslunarstjórann er þetta: Við verðum að gera betur í að fara að tilmælum almannavarna um að fækka verslunarferðum; skipuleggja innkaup, kaupa meira í einu og fara færri ferðir. Margir gera þetta nú þegar, en það má enn gera betur. Við þurfum líka að ræða vel við börnin okkar og unglingana, um að nú sé ekki lengur í boði að skjótast í búðina eftir einum drykk og snúð, eða álíka - og það jafnvel oft á dag. Við verðum einfaldlega að breyta verslunarhegðun okkar - og leggja okkar af mörkum við að lágmarka samgang fólks. Gerum betur í þessu!  Velferð okkar allra er það sem hangir á spýtunni.

Ef ég vil fara í sýnatöku vegna COVID-19, hvernig ber ég mig að?

Ég leitaði til sóttvarnalækna Heilbrigðisstofnunar Vesturlands eftir betri upplýsingum um hvað við gerum þegar við viljum fara í sýnatöku vegna COVID-19. Eftirfarandi leiðbeiningar eru byggðar á svörum sóttvarnalæknis hjá HVE: 

  • Við eigum endilega að hafa samband við heilsugæslustöðina okkar ef við finnum fyrir einkennum og/eða teljum að við gætum hafa smitast. 

  • Læknir eða hjúkrunarfræðingur metur hvort taka skuli sýni og fer þá eftir ákveðnum fyrirmælum, hlutlægum atriðum (það er ekkert “af því bara”). Um leið er ákveðið - einnig eftir skýrum fyrirmælum - hvort gæta þurfi fullra smitvarna (t.d. læknir í hlífðargalla) eða minni varna. 

  • Sýnið er svo tekið annað hvort inni á heilsugæslustöð eða með því að læknirinn kemur út á bílaplan fyrir utan heilsugæslustöðina. Einnig er hugsanlegt að læknirinn komi til okkar, ef svo ber undir. 

  • Sýnataka fer fram með þessum frægu sýnatökupinnum, sem mikið hafa verið í kastljósinu. Sýnatakan er afar einföld og fljótleg í framkvæmd.  

Við eigum sem sagt ekki að hika við að hafa samband við heilsugæslustöðina og biðja um að fara í sýnatöku. Það er engin ástæða til að forðast það og heldur ekki ástæða til að fara í felur með það. Við látum taka sýni af því að við viljum gæta heilsu okkar og sýna náunganum tillitssemi - vera örugg!

Björg