Þessi mynd sýnir Grundfirðinga á öllum aldri á hátíðisdegi, fyrir mörgum árum. Myndina tók Bæring Ce…
Þessi mynd sýnir Grundfirðinga á öllum aldri á hátíðisdegi, fyrir mörgum árum. Myndina tók Bæring Cecilsson, ljósmyndari, sem fæddur var 24. mars 1923. Myndin minnir okkur á að með vori og sumri koma góðar stundir, þegar við getum aftur safnast saman og glaðst saman.

Kæru íbúar! 

Í frétt RÚV fyrir sex dögum, kom fram að um helmingur allra skólabarna í heiminum getur ekki sótt skólana sína vegna útbreiðslu COVID-19. Í 102 löndum hefur skólum verið lokað og í ellefu löndum til viðbótar sætir skólastarf takmörkunum, í aðstæðum sem eru án nokkurrar sögulegrar hliðstæðu, að sögn. Þetta eru um 850 milljónir barna og ungmenna - og þetta var fyrir sex dögum. 

Í dag eru það forréttindi að fá að sækja skólann sinn daglega, hitta vini og skólafélaga, njóta leiðsagnar kennara, fá heita skólamáltíð og fá að stunda tónlistarnám, annað hvort í skólanum eða heima. 

Það sama kom fram hjá Guðmundi Smára, framkvæmdastjóra G.Run ehf., í kvöldfréttum RÚV nú í kvöld. Rætt var við hann um undanþágu sem fyrirtækið fékk frá kvöð samkomubannsins, til að mega hafa fleiri en 20 starfsmenn í gríðarstórum vinnslusal fiskvinnslu fyrirtækisins. Smári sagði að í dag væri meginmálið að geta farið að heiman, til vinnu og heim aftur. 

Í raun eru þetta forréttindi okkar sem enn getum stundað vinnu og megum fara út fyrir heimilið okkar. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þessu - því forréttindablinda leiðir ekki til góðs. Við þurfum að átta okkur á að þessi staða er dýrmæt; að við getum auðveldlega glatað henni og gætum þurft að sæta því að sitja heima. Afleiðingarnar eru margvíslegar og geta verið þungbærar. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að við gerum öll það sem við getum til að varna útbreiðslu COVID-19, gætum hreinlætis og allra helst, að við takmörkum ferðir okkar og samveru við aðra, tímabundið. 

Á tímum sem þessum er okkur líka hollt að muna að skóli, vinna og daglegt ferða- og athafnafrelsi eru ekki bara forréttindi í dag, heldur alla daga, í okkar heimshluta. Leiðum hugann að börnum heims sem búa ekki við þann munað að geta gengið í skóla eða átt áhyggjulausa æsku. Þegar faraldur eins og sá er nú gengur yfir bætist við, er gríðarlegur fjöldi barna heimsins í enn viðkvæmari stöðu. Á tímum sem þessum ættum við að leggja okkur sérstaklega eftir sögum af þessum börnum og aðstæðum þeirra, t.d. þegar við nýtum okkur þann munað sem hreint, rennandi vatn er, til að þvo okkur um hendurnar og varna smiti. Hér á síðu Unicef er að finna sögur sem minna okkur á hvað við búum við mikinn munað - alla daga.

Við höfum það gott - förum vel með það! 

Björg