Grundarfjörður, 30. nóvember 2019
Grundarfjörður, 30. nóvember 2019

Kæru íbúar!

Í dag voru 16 manns í sóttkví í Grundarfirði, en voru 13 í gær. Alls eru 324 í sóttkví á öllu Vesturlandi og hefur því fækkað nokkuð. Alls voru 32 smit á Vesturlandi, einu fleiri en í gær, en óbreytt staða á Snæfellsnesi. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi. 

Samkomubann og takmarkanir á skólahaldi framlengdar

Í dag ákvað heilbrigðisráðherra að fara að tillögu sóttvarnalæknis og framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem upphaflega áttu að falla úr gildi 13. apríl nk. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að fjölgun smita hafi hingað til verið í samræmi við bjartsýnustu spár sérfræðinga, en hins vegar hafi alvarlega veikum einstaklingum fjölgað hratt og í takt við svartsýnustu spár, m.a. með miklu álagi á gjörgæsludeild Landspítalans. Frekari aukning á smiti í samfélaginu með fjölgun alvarlega veikra, geti skapað mikinn vanda innan heilbrigðiskerfisins og gert því erfitt fyrir, að gegna hlutverki sínu. Þess vegna var ákveðið að framlengja samkomubanni.

Í dag var líka haft eftir sóttvarnalækni að samkomubanni og takmörkunum á skólahaldi yrði aflétt í áföngum, eftir 4. maí. Við sjáum því fram á skólahald með nokkuð breyttu sniði, alveg til vorsins, eins og segir í páskakveðju grunnskólans í dag.

Í dag sagði heilbrigðisráðherra: 

Nú skiptir öllu máli að við höldum áfram að standa saman sem einn maður, fylgja fyrirmælum okkar besta fagfólks og koma þannig í veg fyrir að álag á heilbrigðiskerfið fari yfir þolmörkin. 

Við skulum öll taka þessi orð til okkar - leggja okkar af mörkum.

Verkefni dagsins 

Í dag fundaði almannavarnanefnd Vesturlands á fjarfundi, en í henni sitja af hálfu sveitarfélaganna á Vesturlandi bæjarstjórar og slökkviliðsstjórar. Farið var yfir stöðu mála og lagt upp úr spurningum nefndarmanna. Flestar spurningarnar voru til sóttvarnalækna HVE, um ýmislegt sem snýr að sýnatökum, sóttvörnum og verklagi í kringum það, en einnig til fulltrúa Rauða krossins. Af hálfu almannavarnanefndar er svo aðgerðastjórn starfandi og hefur hún fundað alla virka daga, síðustu vikur. 

Í dag átti stjórn Svæðisgarðsins Snæfellsness einnig netfund og fór yfir stöðu mála á Snæfellsnesi, einkum hvað varðar ferðaþjónustu og tengda þjónustu. Ég sit í stjórninni fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar. Í byrjun desember sl. samþykkti eigendaráð Svæðisgarðsins nokkur þungavigtarverkefni sem á að hrinda í framkvæmd á næstu árum. Þessi verkefni eru algjörlega í takt við það sem mikilvægt er að gera, á næstu vikum, til aðstoðar við fyrirtæki og þjónustu á Snæfellsnesi m.t.t. stöðunnar núna. Stjórnin lagði á ráðin um næstu skref. Meira síðar.

Dagurinn fór sömuleiðis í undirbúning bæjarstjórnarfundar og hafnarstjórnarfundar sem fram fara í byrjun næstu viku, sem og í samtöl við skólastjórana og fleira samstarfsfólk. Auk þess átti ég samskipti við RSK en bærinn hefur leitað eftir gagnsærri upplýsingum um útsvarstekjur, í gögnum RSK til sveitarfélaga, í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Góð ráð til foreldra á tímum Covid-19 faraldurs

Félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og embætti landlæknis hafa gefið út góð ráð til foreldra á tímum COVID-19 faraldursins. Foreldraráðin eru meðal annars unnin í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og UNICEF.

Á vef félagsmálaráðuneytisins segir m.a. að margvíslegt álag hvíli á foreldrum um þessar mundir og brýnt sé því að veita þeim stuðning og aðstoð. Markmið útgáfunnar sé að ráðin verði foreldrum leiðarljós í flóknu  hlutverki sínu nú. 

Einnig hefur félagsmálaráðuneytið, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og Rauða kross Íslands, sett af stað vitundarvakningu um barnavernd og velferð barna, með tveimur myndböndum. Annars vegar er ákall til almennings um að láta vita ef áhyggjur vakna af velferð barns með því að hringja í númerið 112. Hins vegar er því beint að börnum og ungu fólki að hafa samband við Hjálparsímann 1717 eða netspjallið www.1717.is ef þau þurfa aðstoð eða stuðning. Myndböndin má sjá hér á Facebook-síðu félagsmálaráðuneytisins

Ég leyfi mér svo einnig að vísa beint á þessi góðu skilaboð Akraneskaupstaðar, í samvinnu við Gaman saman hópinn, til foreldra, vegna skólahalds og tómstundastarfs, sett fram á 3 tungumálum. 

Umræðuþáttur fyrir börn

Ég rakst á að RÚV undirbýr nú umræðuþátt um COVID-19 þar sem sérfræðingar og ráðamenn svara spurningum og vangaveltum barna og ungmenna, sem geta sent inn fyrirspurn í þáttinn - sjá nánar hér á vef RÚV. Þetta hefur gefist vel í öðrum löndum og verður fróðlegt að sjá hvað það er sem börn á Íslandi velta fyrir sér á þessum óvenjulegu tímum.

Bakverðir Fellaskjóls

Fyrir nokkru auglýsti Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól eftir fólki í bakvarðasveit, þ.e. til að vera innan handar ef á þyrfti að halda, við störf og aðstoð á Fellaskjóli. Ánægjulegt er að segja frá því að í vikunni voru komnir 15 bakverðir á skrá hjá Fellaskjóli og eru enn að tínast inn, að sögn Hildar Sæmundsdóttur, formanns stjórnar Fellaskjóls. 

Í vikunni afhenti Rauða kross deildin í Grundarfirði Fellaskjóli að gjöf tvær tölvur og 2 þráðlaus heyrnartól, sem nýtt verða fyrir íbúa. Sagt var frá þessu í Skessuhorni og á Facebook-síðu Fellaskjóls. 

Gjöfin kemur sér einstaklega vel núna þegar heimsóknir hafa verið aflagðar tímabundið á Fellaskjóli. Með tækjunum eru samskipti auðvelduð með myndsamtölum milli íbúa Fellaskjóls og ættingja og vina. Starfsfólk Fellaskjóls bendir vinum og ættingjum á að hafa samband í síma heimilisins, 438 6677, til að undirbúa samskipti með nýju tækjunum. Vel gert Rauða kross fólk! 

 

Björg