Kirkjufell, 26. júlí 2020.
Kirkjufell, 26. júlí 2020.

Kæru íbúar! 

Stjórnvöld hafa kynnt hertar aðgerðir vegna kórónaveirunnar og taka þær gildi frá kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 31. júlí 2020, sjá nánar hér.

Í ljósi þessara aðgerða og breyttra aðstæðna vegna vaxandi útbreiðslu kórónusmita í landinu, undirbúum við nú breytingar í starfsemi stofnana Grundarfjarðarbæjar. Það mun skýrast næstu daga, hverjar þær eru. Við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að bregðast við þessari nýju stöðu. 

Eins og áður, þá óskum við eftir góðri samvinnu við bæjarbúa og aðra notendur þjónustunnar, í sameiginlegri baráttu okkar við þennan óvelkomna gest. 

Hér er slóðin á Covid-síðu bæjarins, frá því fyrr á árinu. 

Helstu aðgerðir innanlands frá hádegi 31. júlí 

 • Hámark 100 manns sem mega koma saman. Börn fædd 2005 og síðar eru undanskilin í þeirri talningu. 

 • Alls staðar þar sem fólk kemur saman, m.a. í allri starfsemi stofnana og fyrirtækja, verður nú skylda að hafa a.m.k. 2 metra bil á milli einstaklinga.
  Þetta gildir t.d. um alla starfsemi á vegum Grundarfjarðarbæjar. Þetta bil þarf að tryggja t.d. á milli sundlaugargesta, fólks á tjaldsvæðum, í bókasafni, upplýsingamiðstöð og víðar. Auk þess gildir þetta á milli starfsfólks stofnana. 

 • Í verslunum, opinberum byggingum og þjónustufyrirtækjum sem eru opin almenningi þarf að tryggja aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn, sinna þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er, auk þess að setja upp merkingar og skilti til að minna fólk á einstaklingsbundnar sóttvarnir. 

 • Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað, s.s. íþróttastarf, geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi búnað milli notenda. Einnig að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé, geti þeir ekki tryggt fjöldatakmörkun eða 2ja metra bil milli ótengdra aðila. 

 • Aðgerðir verða sömuleiðis efldar á landamærunum frá 31. júlí. 

Breytingar í starfsemi Grundarfjarðarbæjar

Helstu breytingar sem nú eru í undirbúningi í starfsemi stofnana bæjarins eru eftirtaldar: 

 • Sundlaugin 

Fjöldatakmarkanir verða settar fyrir gesti sundlaugarinnar til að tryggja framkvæmd 2ja metra reglunnar í öllum rýmum, þar á meðal pottum og búningsklefum. Auglýsing verður birt síðar í dag. Þetta mun án efa hafa áhrif á þjónustustig og biðjum við notendur að sýna þessum aðstæðum skilning. Þrif og sótthreinsun verður aukin. 

 • Tjaldsvæði og almenningssalerni

Svæðinu verður skipt upp til að tryggja 100 manna “hólfun”, eftir þörfum. Salerni í íþróttahúsi verða opin ef fjöldi gesta verður slíkur. Tveggja metra merkingar og nýjar auglýsingar vegna hertra reglna verða settar upp við salerni og í öðrum þjónusturýmum. 

Almenningssalerni í samkomuhúsi verða áfram opin, en merkingar endurskoðaðar m.t.t. tveggja metra reglunnar. Þrif og sótthreinsun verður aukin.

 • Aðgengi annarra en starfsmanna takmarkað

Líkt og gilti fyrr á árinu verða gestakomur í stofnanir bæjarins takmarkaðar, t.d. í áhaldahús, eignaumsjón og hafnarhús. 

 • Leikskóli og Eldhamrar 

Fyrsti skóladagur leikskólabarna á Eldhömrum og Sólvöllum eftir sumarleyfi er miðvikudagurinn 5. ágúst nk. Reynsla undanfarinna ára sýnir að fyrstu dagarnir eru rólegri og börnin tínast inn smátt og smátt eftir frí. Við búumst ekki við neinum stórvægilegum breytingum, en reikna má með að samkomur og heimsóknir verði takmarkaðar. Í byrjun næstu viku verða gefnar frekari leiðbeiningar til foreldra um fyrirkomulagið. 

 • Önnur starfsemi

Miðað við stöðuna í dag þá búumst við frekar við því að skólasetning í ágúst verði með óhefðbundnum hætti, en of snemmt er að segja til um annað sem snýr að skólastarfinu. Staða mála verður að leiða það í ljós. Bæjarskrifstofa opnar miðvikudaginn 5. ágúst nk. eftir 3ja daga sumarlokun og mælumst við til að viðskiptavinir komi einungis með brýn erindi, en nýti frekar síma og aðra samkiptamiðla til að sinna erindum í Ráðhúsi og við aðrar stofnanir bæjarins. 

Staðan í dag 

Covid-19 faraldurinn er því miður í hröðum vexti hér á landi. Samkvæmt upplýsingum umdæmislæknis sóttvarna á Vesturlandi til aðgerðastjórnar á Vesturlandi fyrr í dag, kom fram að 42 smitaðir einstaklingar voru í einangrun um miðjan dag í dag á landinu öllu, 219 voru í sóttkví og einn er inniliggjandi á sjúkrahúsi. Á Vesturlandi kom upp fyrir nokkrum dögum hópsýking á Akranesi, þar sem alls 7 greindust með smit og fleiri hafa greinst annars staðar út frá því smiti. 

Í fréttum hefur verið haft eftir sérfræðingum okkar, að búast megi við því að meðal okkar í samfélaginu séu smitandi einstaklingar. Við vitum ekki hvar eða hve margir. 

Förum í skimun! 

Fólk á alls ekki að draga það við sig að leita sér upplýsinga hjá heilbrigðisstarfsfólki ef það glímir við veikindi eða er í vafa um heilsufar sitt. Hægt er að fara í skimun fyrir Covid á næstu heilsugæslustöð. Síminn á heilsugæslustöð HVE í Grundarfirði er 432-1350. 

Í samskiptum mínum við umdæmislækni sóttvarna hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands fyrr í dag, setti hann fram eftirfarandi leiðbeiningar, sem gott er að hafa í huga: 

“Eigi fólk við veikindi að stríða, sem lýsa sér með hita, kvefi, hósta, hálssærindum, beinverkjum og skertu lyktar- og bragðskyni eru allir hvattir til að hafa samband við næstu heilsugæslustöð símleiðis. Mikilvægt er að halda sig til hlés í umgengni við annað fólk þar til nánari skýring á veikindum liggur fyrir.
Utan vinnutíma veitir 1700 sími Læknavaktarinnar upplýsingar og leiðbeinir viðkomandi áfram til heilbrigðisstarfsmanns á vakt. Það gilda sömu viðmið og í vor ef ástæður eru til sýnatöku. 
Yfirleitt er hægt að sinna sýnatöku samdægurs en viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður; læknir eða hjúkrunarfræðingur, sem tekur sýnið, þarf að [sinna ákveðnum undirbúningi]. Niðurstaða er yfirleitt komin innan sólarhrings en getur mögulega tekið lengri tíma ef mikið álag er vegna skimunar á landamærum í Keflavík.” 

Heimkomusmitgát 

Landamæri Íslands eru opin íbúum og ríkisborgurum EES og Sviss, en Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ytri landamærum Schengen-svæðisins, sem nú eru í gildi, sjá hér. Komufarþegar eiga kost á að fara í tvöfalda sýnatöku í stað 14 daga sóttkvíar áður. Við sem erum búsett hér á landi eða erum íslenskir ríkisborgarar og veljum að fara í sýnatöku við komu til landsins, eigum að passa uppá svokallaða heimkomusmitgát - sjá hér á íslensku, pólsku og ensku  - í fimm daga eða þar til niðurstöður úr síðari sýnatöku liggja fyrir. Þetta er gert til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófi á landamærum geti leitt til stærri hópsmita á Íslandi. 

Við sem búum á Snæfellsnesi þurfum að panta tíma fyrir síðari landamæraskimun í Stykkishólmi eða Borgarnesi, en einnig er mögulegt að fara í skimun í gamla Orkuhúsinu í Reykjavík. Þessir sýnatökustaðir eru ákvörðun stjórnvalda, en ekki HVE.   

Breyttar reglur um heimsóknir á Fellaskjóli

Rétt er að vekja athygli á því að Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól hefur breytt reglum sínum um heimsóknir til íbúa. Frekari takmarkanir gilda nú um heimsóknir og umgengni gesta. Sjá nánar hér. 

Við erum öll almannavarnir! 

Það verður aldrei nógu oft sagt að það erum við einstaklingarnir sem ráðum mestu um hvernig þróunin verður. Eftir góðan árangur í vor eru það sannarlega vonbrigði hvernig mál hafa snúist nú á örskömmum tíma. Við því mátti þó búast, eins og stjórnvöld brýndu fyrir okkur, því faraldurinn virðist ekki í rénun í öðrum löndum. Þessa stöðu verðum við að taka alvarlega og eigum ekki aðra kosti en þá að leggja okkar af mörkum, til að vinna bug á veirunni. 

Stöndum saman - sýnum aðgát, hvert og eitt

Þessi pistill verður þýddur á pólsku föstudaginn 31. júlí.

Björg