Hátíðin "Á góðri stund" var haldin með miklum glæsibrag um síðustu helgi.  Mikill fjöldi gesta sótti bæinn heim.  Bæði var um brottflutta Grundfirðinga að ræða og gesti frá öðrum byggðarlögum.  Allir þessir gestir eru okkur kærir og setja mikinn og skemmtilegan svip á hátíðina.  Í stuttu máli var yfirbragð hátíðarinnar gott og öllum þátttakendum til sóma.  Félag atvinnulífsins í Grundarfirði (FAG) stendur fyrir hátíðinni með dyggum stuðningi fyrirtækja og bæjarins.  Þannig sameina þessir aðilar krafta sína í skemmtilegu framtaki sem hefur verið að bæta við sig og stækka undanfarin ár.  Íbúafjöldi bæjarins margfaldaðist um helgina og mikið þurfti til svo vel færi um alla.  Margir gistu í heimahúsum hjá ættingjum og vinum en mikill fjöldi fólks kom með viðlegubúnað og gisti tjaldsvæði inni í ... 

Grundarfjarðarbæ og á nálægum tjaldsvæðum í dreifbýlinu.  Til þess að hátið af þessu tagi gangi upp þarf mikinn undirbúning og skipulagningu.  FAG réð Jónas Guðmundsson til þess að vera framkvæmdastjóri hátíðarinnar eins og á síðasta ári og óhætt er að segja að hann hafi leyst verkefnið með glæsibrag.  Er þá ótalinn hlutur starfsmanna áhaldahúss bæjarins undir forystu Valgeirs Þ. Magnússonar sem og annarra.  Starfsmenn áhaldahússins báru hitann og þungann af undirbúningi tjaldsvæða og hátíðarsvæðis og umhirðu bæjarins alls alla hátíðardagana.  Þetta verkefni  var leyst þannig að eftir því var tekið og umtalað hversu fljótt svæðin voru hreinsuð og allt yfirbragð snyrtilegt.  Öllum starfsmönnum sem komu að verkefninu og lögðu á sig ómælda vinnu eru færðar þakkir fyrir afar gott framlag.  Það er óhætt að líta til bæjarhátíðarinnar á næsta ári með tilhlökkun.