Eftirfarandi er yfirlýsing bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þann 18. september 2018:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Arion banka um að loka útibúi sínu í Grundarfirði þann 5. nóvember næstkomandi og hvetur stjórnendur bankans til að endurskoða hana.

 

Stríðir gegn eigin stefnu Arion banka

Lokun bankaútibúsins stríðir gegn eigin stefnu Arion banka um samfélagslega ábyrgð. Sú stefna heitir Saman látum við góða hluti gerast og er sögð vísa til þess mikilvæga hlutverks sem Arion banki gegnir í samfélaginu. Þetta er eina bankaútibúið í Grundarfirði og eftir lokun þess þarf að aka tæpa 40 km í næsta útibú bankans. Líklegt er að viðskiptavinir í Reykjavík sættu sig illa við að þurfa að fara til Keflavíkur í hvert sinn sem þeir ættu erindi í banka. Útibúið í Grundarfirði veitir mikilvæga þjónustu og öryggi, bæði fyrirtækjum og einstaklingum í tæplega þúsund íbúa byggðarlagi, en ekki síður ferðamönnum. Lokun útibúsins rímar engan veginn við stefnu bankans að „starfa með ábyrgum hætti, í sátt við samfélag og umhverfi“. Lokunin er ekki í sátt við samfélagið í Grundarfirði og í aðdraganda ákvörðunarinnar var ekki leitað upplýsinga hjá fyrirtækjum í bænum um framtíðaráform, sjónarmið og væntingar þeirra. Því síður liggur fyrir hvað Arion banki hyggst spara með lokuninni. Tveimur starfsmönnum útibúsins verður boðið starf í Stykkishólmi. Þá stendur aðeins eftir húsnæðiskostnaður.

Atlaga að grunnstoðum samfélagsins

Arion banki segir í tilkynningu um lokunina að ásókn í stafrænar þjónustuleiðir hafi aukist og sífellt sé kallað eftir meiri þjónustu á því sviði. En hver segir að bankinn þurfi að loka eina útibúinu í Grundarfirði þó að stafræn þjónusta aukist? Bankinn hefur víða fækkað starfsfólki, en þrátt fyrir hraða þróun og breytingar í bankaþjónustu sinna útibú ennþá mikilvægri þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga.

Með því að loka útibúinu er Arion banki að leggja niður eina af grunnstoðum byggðarlagsins og grafa undan samfélagsgerðinni. Þannig tapar Arion banki staðarþekkingu og mikilvægum tengslum við fyrirtæki og aðra viðskiptavini á svæðinu, og þar með tækifæri til að vera virkur þátttakandi í uppbyggingu og nýsköpun. Viðskiptavinir bankans á svæðinu eiga mikilvægan þátt í afkomu hans. Ekki verður annað séð en Arion banki sé að brenna brýr að baki sér með þessum misskildu sparnaðarleiðum og grafi undan fyrirtækjunum sem hann byggir viðskipti sín á.

Einsleitar aðgerðir sem bitna á landsbyggðinni

Ákvarðanir um lokun bankaútibúa virðast teknar án tillits til þess hver áhrifin verða á samfélagsgerðina. Á sama tíma hefur verið dregið úr ýmissi annarri þjónustu innan byggðarlaganna, ekki síst á vegum hins opinbera. Þannig er sífellt verið að hola kjarna byggðanna að innan, en þess krafist, eins og ekkert hafi í skorist, að atvinnulíf og þjónusta heimamanna haldi áfram að skila sínu til heildarinnar. Skilningsleysi gagnvart landsbyggðinni er áberandi í þessari þróun og ljóst að ákvarðanir eru oftar en ekki teknar með aðstoð Excel fremur en almennri skynsemi. Eigi að ríkja almenn sátt um þá gríðarlegu atvinnuháttabreytingu sem felst í hinni svonefndu fjórðu iðnbyltingu, þá hljótum við að vilja að hún skili landsmönnum öllum ávinningi, en ekki bara þeim svæðum sem þegar hafa forskot.

Óskað eftir endurskoðun

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar fer fram á það að stjórnendur Arion banka endurskoði ákvörðun sína og horfi til þeirra fjölmörgu tækifæra sem við blasa á Snæfellsnesi. Sömuleiðis grípi bankinn tækifærin sem hröð tækniþróun hefur skapað og nýti þá aðstöðu og vinnuafl sem fyrir hendi er í Grundarfirði til að leysa fjölbreytt verkefni í stóru fyrirtæki.