- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Tilraunadælingu á borholu BS-01 á Berserkseyri er lokið og dælan var tekin upp 15. og 16.maí. Hún er nú til skoðunar ásamt fylgihlutum. Á síðari stigum tilraunadælingarinnar dró stöðugt úr afköstum dælunnar, þannig að dælt magn minnkaði og vatnsborð í jarðhitakerfinu hækkaði. Ýmsar getgátur voru uppi um ástæður, meðal annars að dæluhjólin væru slitin eða tærð. Sökudólgurinn er kominn í ljós, göt mynduðust á dælurörið, flest á samsetningum, sjá mynd, og vatnið hefur sprautast þar út. Á þeim sex mánuðum sem liðið hafa frá því dæling hófst hefur vatnið náð að tæra sig í gegnum dælurörin.
Það kom á óvart að dælan sjálf virtist vera nánast sem ný, varla sá á málningu og ekkert sá á ryðfríum hlutum hennar þ.e.a.s. mótor og kapalhlíf. Annað kom hins vegar í ljós þegar byrjað var að rífa dæluna, dæluhúsin eru úr steypujárni og eru þau orðin fúin.
Af þessu má sjá að stál og steypujárn hefur ekki nægjanlegt tæringarþol við þessar aðstæður.