Í fyrra vetur hittust nokkrir áhugasamir einstaklingar sem höfðu áhuga á að endurvekja skíðadeildina í Grundarfirði. Núna í janúar hefur hópurinn verið að vinna að því að koma skíðalyftunni og allri aðstöðu í gott lag. Síðastliðinn laugardag var haldinn vinnudagur á skíðasvæðinu Gráborg.  Gengið var vasklega til verka og voru öryggisgirðingar lagaðar í kringum efstu möstrin, haldið var áfram að lagfæra pallinn í kringum skálann, skíðaskálinn þrifinn og salernisaðstaða lagfærð.  Nú eru helstu öryggisatriðin komin í góðan farveg hjá okkur og bíðum við bara eftir aðeins meiri snjó svo að hægt sé að opna lyftuna. Viljum við þakka þessu góða fólki kærlega fyrir gott starf um helgina.

 

Unnið að opnun

Skíðanefndin hefur tekið þá ákvörðun að börn sem ekki hafa gott vald á skíðum séu í fylgd með forráðamanni sem ber fulla ábyrgð á því á skíðasvæðinu. Jafnframt hefur verið ákveðið að börn allt upp í 9 ára noti  skíðahjálma. Nú er verið að athuga með slíka hjálma og verða þeir auglýstir síðar.

 

Foreldrar! Skoðið vel skíðaútbúnaðinn sem börnin/unglingarnir ykkar eiga og passið vel upp á að skíðabindingar séu rétt stilltar. Í flestum tilfellum er hægt að fá leiðsögn hjá lyftuvörðum.

 

Ítrekum það við börnin/unglingana að ganga vel um svæðið, fara eftir öllum öryggisatriðum og þeim fyrirmælum sem gefin eru. Þeir sem brjóta reglurnar verður vísað af svæðinu um óákveðinn tíma.

 

Umgengnisreglur 2006

Ganga skal snyrtilega um skíðasvæðið og skíðaskála.

Hættulegt er að vera með lausar reimar og axlabönd á skíðabuxum, flaksandi hár og trefla.

Ekki bruna niður brekku nema geta örugglega stoppað sig.

Alls ekki renna sér undir lyftuvírinn við skíðaskála eða miðmastur.

Stinga skal skíðum upp á endann við skíðaskála.

Muna að fara alltaf aftast í röðina og að það má aðeins vera einn á hverjum diski.

Bannað er að “sviga” í skíðalyftunni.

Mikilvægt er að börn yngri en 9 ára séu með skíðahjálma og í fylgd með fullorðnum.

 

Starf skíðadeildarinnar byggist eingöngu á sjálfboðaliðum. Áhugasamir geta haft samband í
síma 690 2145 (Kata).

 

Lyftan verður opin virkadaga ef veður leyfir (og mannskapur fæst) frá kl. 15 – 18, um helgar verður lyftan opin frá 11 – 18.  Lyftugjaldið verður það sama og í fyrra eða 300 kr fyrir börn og 500 kr fyrir fullorðna.

 

Við viljum árétta það að akstur snjósleða er ekki leyfilegur á skíðasvæðinu sjálfu eða nálægt skíðaskálanum, vinsamlegast sýnið tillitssemi.

 

 

Vonandi eigum við gott skíðatímabil í vændum.

 

Fyrir hönd skíðadeildarinnar

 

Kata og Ásdís