Skilafrestur á myndum í Ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðar rann út þann 10. nóvember síðastliðinn. Frábær þátttaka er í keppninni í ár því alls bárust 52 myndir svo það verður heldur betur úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina.

Úrslitin verða gerð kunn á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei í Samkomuhúsinu þann 3. desember og þar munu myndirnar sem sendar voru inn í keppnina hanga til sýnis.

Verðlaunin fyrir fyrstu þrjú sætin eru ekki af verri endanum því sigurvegarinn hlýtur að launum kr. 50.000, fyrir annað sætið eru kr. 30.000 og svo 20.000 kr. fyrir það þriðja.