Stefnt að því að ná til allra 9. og 10. bekkinga í landinu

 

Alnæmissamtökin á Íslandi standa nú fyrir fræðslu- og forvarnarátaki sem beinist að 9. og 10. bekkingum í öllum grunnskólum landsins. Þetta er í þriðja skipti sem Alnæmissamtökin skipuleggja fræðslu um hiv-smit, alnæmi og kynsjúkdóma almennt fyrir þennan aldurshóp en aðalstyrktaraðilar átaksins eru að þessu sinni Landlæknisembættið, lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline ehf. og Kaupangur eignarhaldsfélag.

 

 

Í ár hófst forvarnar-og fræðsluátakið á Austurlandi og var fyrsti fundurinn á Egilsstöðum 30. október sl. og í framhaldinu voru allir nemendur á Austurlandi sóttir heim. Næstu daga verða skólar á Vesturlandi og á Hólmavík  heimsóttir, samkvæmt meðfylgjandi dagskrá:

 

Miðvikudagur 15. nóv.

kl. 13.00 Laugargerðisskóli, Eyjahreppi

 

Fimmtudagur 16. nóv.

                        kl. 8.00 Grunnskóli Grundarfjarðar

                        kl. 10.50 Grunnskólinn í Búðardal

                        kl. 12.30 Reykhólaskóli

 

Föstudagur 17. nóv.

                        kl. 9.00 Grunnskólinn á Hólmavík.

 

Þriðjudagur 21. nóv.

                        kl. 8.30 Lýsuhólsskóli

                        kl. 9.50 Grunnskóli Snæfellsbæjar Ólafsvík

                        kl. 12.10 Grunnskólinn í Stykkishólmi

 

Það var með stuðningi Landlæknisembættisins og Hjálparstofnunar kirkjunnar að þessu verkefni var fyrst hrint af stað veturinn 2002-2003. Þá fóru fulltrúar Alnæmissamtakanna í fræðsluherferð um landið og heimsóttu liðlega 9000 nemendur í 140 grunnskólum auk þess sem farið var á meðferðarheimili þar sem unglingar á þessum aldri dvöldu. Forvarnarátakið var síðan endurtekið veturinn 2004 til 2005 en þá fengu liðlega 9300 nemendur í 9. og 10. bekkjum fræðslu.

 

Áþreifanlegur árangur

Fræðslufulltrúar Alnæmissamtakanna eru ýmist hiv-jákvæðir eða nánir aðstandendur hiv-jákvæðra.Á fundunum er m.a. gerð stuttlega grein fyrir starfsemi samtakanna og farið yfir muninn á hiv og alnæmi.  Einnig er fjallað um þróun sjúkdómsins hér á landi og breytingar sem orðið hafa á hópi þeirra sem greinast hiv-jákvæðir. Fyrirlesarar segja frá persónulegri reynslu af sjúkdóminum og gerð er grein fyrir helstu smitleiðum og lyfjum sem notuð eru til að bregðast við honum. Þá er einnig fjallað um aðra kynsjúkdóma og smitleiðir þeirra eins og klamydíu sem er útbreitt vandamál meðal íslenskra ungmenna. Fræðsluefni frá Alnæmissamtökunum og Landlæknisembættinu er jafnan skilið eftir á hverjum stað þannig að hægt sé að halda umfjöllun áfram eftir að fundi lýkur. Alnæmissamtökin virðast hafa náð áþreifanlegum árangri með þessu forvarnarstarfi því skráðum klamydíutilfellum meðal ungmenna hefur fækkað í kjölfar beggja fræðsluherferðanna. 

 

 

Að miðla fordómalaust af eigin reynslu

Fræðslu- og forvarnarátaki Alnæmissamtakanna hefur verið vel tekið bæði af skólum og nemendum og er ljóst að mikil þörf hefur verið fyrir þessa fræðslu. Samtökin líta á átakið sem þjónustu við skólana í landinu og leggja höfuðáherslu á að undirstrika nauðsyn þess að fólk sýni ábyrga hegðun. Samtökin telja að besta forvörnin felist í að tala opinskátt um sjúkdóminn og hættuna á smiti (og að þeir sem þekkja til af eigin raun miðli fordómalaust af reynslu sinni). Alnæmissamtökin meta afar mikils stuðning þeirra sem veitt hafa verkefninu brautargengi á undanförnum árum. Sveinn Skúlason hjá GlaxoSmithKline segir þátttöku fyrirtækisins í verkefni Alnæmissamtakanna hér á landi í samræmi við þann stuðning sem GlaxoSmithKline hefur lagt í fræðslu-og forvarnarstarf víða um heim undir merkjum Positive Action.(www.positiveaction.com.).

 

Stefnt er að því að ljúka fræðslu á Vesturlandi fyrir áramót.

 

Nánari upplýsingar:

Birna Þórðardóttir frkvstj. Alnæmissamtakanna á Íslandi

Netfang: aids@aids.is

Símar: 552 8586 / 862 8031