Fræðsluþing Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum verður haldið í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði miðvikudaginn 19. febrúar 2014, kl. 13:30 - 16:30.

Fyrirlestrar og umræður verða um einkenni þolenda kynferðisbrots, skaðlega kynhegðun barna og klám, rannsóknir kynferðisbrota og annarra brota gegn börnum, réttindi barna og fræðsluefni fyrir kennara, börn og foreldra. Fyrirlestrar eru fluttir af fagfólki sem hefur mikla reynslu og þekkingu á málaflokknum, það stýrir jafnframt umræðum með þátttakendum. Allir eru velkomnir og er starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsstarfs, heilsugæslu, barnaverndarmála og félagsþjónustu auk löggæslu og sveitarstjórna sérstaklega hvatt til að mæta.

Við komu á þingið verður boðið upp á kaffi, te, brauð og margskonar meðlæti með eftirtöldum dagskrárliðum:

  • Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpar þingið
  • Jóna Pálsdóttir, formaður verkefnisstjórnar Vitundarvakningar, kynnir verkefnið og vefinn vel.is/vitundarvakning
  • Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, handritshöfundur og verkefnastjóri Fáðu já: „Fáðu já – og hvað svo?“
  • Hjördís Eva Þórðardóttir frá UNICEF á Íslandi: „Réttindafræðsla sem forvörn.“
  • Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss: „Einkenni þolenda kynferðisbrots.“
  • Anna Kristín Newton, sálfræðingur frá Stuðlum: „Skaðleg kynhegðun barna og klám.“
  • Stefán Eiríksson, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu: „Rannsókn kynferðisbrota og annarra brota gegn börnum.“
  • Hópastarf  og umræður

Innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti standa að Vitundarvakningunni og hafa ráðherrar þessara ráðuneyta, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Illugi Gunnarsson og Eygló Harðardóttir,  lagt áherslu á að mæta á þingin eftir því sem við verður komið.

Markmið Vitundarvakningar er að fræða börn og unglinga, og þá sem með þeim starfa, um um eðli og afleiðingar ofbeldis svo að allir séu í stakk búnir til að bregðast við ef barn sýnir þess merki að hafa orðið fyrir kynferðislegu, andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, fræða og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum sem varða ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Eitt af verkefnum Vitundarvakningar er stuttmyndin Fáðu já sem hefur vakið mikla athygli og verið sýnd í flestum skólum. Hún er aðgengileg á vefnum vel.is/vitundarvakning með textum á sex tungumálum ásamt kennsluleiðbeiningum.

Sextán fræðsluþing á vegum Vitundarvakningarinnar hafa verið haldin um land allt. Þau hafa verið vel sótt og er greinilega mikill áhugi á markvissu og víðtæku samstarfi sem stuðli að því að verja börn fyrir ofbeldi.

Vitundarvakningin hvetur alla sem búa á Snæfellsnesi til að fjölmenna á fræðsluþingið í Fjölbrautaskóla Snæfellinga miðvikudaginn 19. febrúar 2014. Skráning fer fram hjá Sveini Þór Elinbergssyni forstöðumanni FSSF, félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, veffang: fssf.is, netfang: sveinn@fssf.is.