Skólameistari

Í dag, 21. nóvember kl. 16.00, rennur út umsóknarfrestur um stöðu skólameistara fyrir Framhaldsskóla Snæfellinga. Auglýsinguna má finna með því að smella hér. Það er menntamálaráðherra sem skipar í stöðu skólameistara, en það gerir hann að fenginni umsögn skólanefndar skólans.

 

Skólanefnd má skipa þegar skólinn hefur formlega verið stofnaður og skv. túlkun menntamálaráðuneytis á ákvæði framhaldsskólalaga, verður skólinn stofnaður þegar samþykkt hafa verið fjárlög þar sem gert er ráð fyrir fjárframlagi til skólans. Samþykktar fjárlaga ársins 2004 er að vænta ca. 5. til 10. desember n.k. og mun ráðherra skipa skólanefndina í kjölfarið. Hún mun síðan veita ráðherra umsögn um skólameistararáðninguna og má því vænta þess að ráðningin geti farið fram um eða eftir miðjan desembermánuð.

Ætlunin er að skólameistari taki til starfa 1. janúar 2004 og hafi starfsaðstöðu á svæðinu.

Þegar skólameistari hefur tekið til starfa munu hann og skólanefnd taka ákvörðun um ráðningu annarra starfsmanna s.s. aðstoðarskólameistara og kennara.

Samningur menntamálaráðuneytis við Hrönn Pétursdóttur starfsmann verkefnisins rennur út 1. febrúar 2004.

 

 

Nemendafélag Framhaldsskólans


Í gær, 20. nóvember, hittist hópur nemenda úr 10. bekkjum grunnskólanna í Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæfellsbæ til að hefja undirbúning að stofnun nemendafélags fyrir hinn nýja framhaldsskóla. Hrönn Pétursdóttir, starfsmaður framhaldsskólaverkefnisins fundaði með krökkunum. Fundurinn tókst vel, hópurinn valdi sér fyrirliða, ákvað hvað hann vildi taka fyrir, hvernig hann ætlaði sér að vinna og innan hvaða tímamarka.  Ennfremur var ákveðið að setja upp sérstaka undirsíðu á vef skólans um nemendafélagið.

Tilgangur með því að stofna nemendafélag skólans nú, þrátt fyrir að skólinn hafi enn ekki tekið til starfa, er að undirbúa félagslíf skólans, rétt eins og annað sem nú er reynt að undirbúa í skólastarfinu. Þannig geta væntanlegir nemendur mótað það hvernig félagslíf þeir vilja hafa í skólanum sínum. Staðan er nefnilega sú að n.k. vor munu nemendur 10. bekkjanna velja sér framhaldsskóla og mun þá okkar skóli keppa um nemendur við aðra framhaldsskóla, sem margir hverjir hafa áratuga hefð fyrir góðu félagslífi – sem heillar jú marga!

Vefur skólans er vistaður undir www.menntagatt.is (framhaldsskólar) og má finna með því að smella beint hér.

 

 

Kynning  

 

Fjölbrautaskóli Snæfellinga (staða undirbúnings og hugmyndafræði) var kynntur fyrir nemendum tíunda bekkja og framhaldsdeildar/fjarnáms dagana 18. og 19. nóvember sl.  Hrönn fór og hitti krakkana á Hellissandi, í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi.

Í októberblaði Skólavörðunnar var birt erindi sem Hrönn flutti á málþingi KHÍ í byrjun október. Hrönn var á ferðinni seinnipart október og kynnti hugmyndafræði og stöðu skólamálsins á nokkrum stöðum á Nesinu.

Þá var skólinn einnig kynntur á sameiginlegum fundi starfsmanna grunnskóla á norðanverðu Snæfellsnesi og fyrir Skólaþjónustunefnd Snæfellinga.  

 

 

Annar undirbúningur

 

Annar undirbúningur er í fullum gangi og í mörg horn að líta. Starfandi er sérstakur ráðgjafarhópur um tækni- og búnaðarmál, þ.e. til að koma fram með hugmyndir og góð ráð varðandi tækjakaup og notkun tölvubúnaðar m.a.

Hópurinn er skipaður reyndum skólamönnum og tæknimönnum skóla, m.a. Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Tækniháskólans og Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki.

 

 

Ef þú vilt koma ábendingum á framfæri eða óska upplýsinga má hafa samband beint við Hrönn Pétursdóttur (hronn.petursdottir@mrn.stjr.is).

 

 

Frekari upplýsingar, m.a. um stöðu skólabyggingar, birtast hér fljótlega