Nýlega var gert samkomulag milli skólastjóra grunnskóla á Snæfellsnesi og skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga um að nemendum 10. bekkja í grunnskólum Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar næsta skólaár standi til boða að stunda nám í FSN í kjarnaáföngum fyrsta árs námsefnis framhaldsskóla samhliða námi í 10. bekk.

Nái nemendur tilskyldum árangri við próftöku áfangans/áfanganna í lokaprófi í  maímánuði 2006, við lok grunnskólanáms, hafa þau lokið námi í 1-2 áföngum kjarnagreina skv. námsskrá framhaldsskóla og þannig sparað sér sem nemur ½ árs námi í viðkomandi greinum í framhaldsskóla. 

 

Fyrirkomulag og framkvæmd þessa grundvallast á:

 

  • Vali á 3 kjarnafögum; íslensku 103, stærðfræði 103 og ensku 103:  Námið stendur yfir veturlangt, nær yfir báðar annir FSN

  • Nemendur geta valið 1-2 áfanganna

  • Nemendur stundi námið með því að fara í FSn í Grundarfirði 1 sinni á viku í 60 mínútna kennslustund  fagkennara þar ásamt því að stunda heimanám og verkefnaskil.

  • Þetta jafngilti námi í 2 valgreinum við grunnskólann í hverri valgreinalotu; þeir sem velja nám í FSn sleppa námi í valgreinum 10. bekkjar sökum mikillar vinnu vegna ástundunar námsins  í viðkomandi kjarnagrein (-um).

  • Skilyrði skólanna fyrir þessu er að nemandi í 9. bekk grunnskólanna vorið 2005 nái þeim námsárangri í vorprófum þessara námsgreina sem nemur að lágmarki einkunninni 8,0 – 8,5 og ennfremur að núverandi fagkennarar sömu greina í grunnskólum mæli með nemanda til námsins.