Það er sannkallaður framkvæmdarhugur í bæjarbúum. Íbúar huga að nærumhverfi sínu, ditta að í görðunum og lagfæra heima hjá sér.

Einnig blasir við okkur sú skemmtilega sjón að húsgrunnar eru að myndast víðsvegar í bænum, tvö einbýlishús koma til með að taka á sig mynd á næstu mánuðum, við Ölkelduveg 23 og Fellabrekku 5.

Framkvæmdir fara einnig að hefjast við Grundargötu 12 - 14, þar sem 9 íbúða fjölbýlishús mun rísa, og við Ölkelduveg 29- 37, þar sem 5 íbúða raðhús verður byggt. Á Nesvegi 4a er verið að vinna að lokafrágangi fyrir nýju netaverkstæði sem sett verður upp á haustmánuðum.

Allskonar framkvæmdir eru í farvegi þessa dagana og er þá vert að minna á að einstaka framkvæmdir eru leyfisskyldar og aðrar tilkynningarskyldar til byggingarfulltrúaembættis, sbr. 2.3.4. gr. og 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, t.d.:

  • Smáhýsi á lóð má að hámarki vera 15m2 og einnig þarf samþykki nágranna að liggja fyrir ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3 metra. Framkvæmdaraðilar eru eindregið hvattir til þess að kynna sér ákvæði byggingarreglugerðar um smáhýsi og hvaða reglur gilda þar um, sjá hér. 
  • Sækja þarf um stöðuleyfi til byggingarfulltrúa vegna lausafjármuna á lóð sem eiga að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem eru sérstaklega skipulögð sem geymslusvæði. Til lausafjármuna teljast hjólhýsi, gámar, bátar o.s.frv. Sjá nánar í reglum um lausafjármuni á vef Grundarfjarðarbæjar, hér.
  • Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga er ekki leyfisskylt nema ef notað er annað, ósambærilegt efni. Sækja þarf um leyfi þegar útliti er breytt, burðarvirki er endurbyggt að hluta eða öllu leyti.
  • Nýklæðningu þegar byggðra bygginga og minniháttar breytingar á burðarvirki ber að tilkynna til byggingarfulltrúa áður en framkvæmdir hefjast. 

Skipulags- og byggingarfulltrúaembætti hvetur íbúa til að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna og að leita ráða áður en til framkvæmda kemur. Ávallt er hægt að senda fyrirspurn á bygg@grundarfjordur.is en einnig bendum við á hnappinn, Umhverfið mitt á vef Grundarfjarðarbæjar.

Áfram með smjörið!