Eins og flestum er kunnugt verður unglingalandsmót UMFÍ haldið hér í Grundarfirði 2009.  Þetta er viðamikið verkefni, en jafnframt mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið.  Búist er við allt að 10.000 manns á mótið og stefnt er að því að keppt verði í 10 keppnisgreinum. Aðstaða fyrir hinar ýmsu greinar er að miklu leiti til staðar í bæjarfélaginu, en þó er eitt og annað sem vantar en reynt er að stilla til hófs í stórframkvæmdum. Undirbúningur hefur gengið vel og þær framkvæmdir sem liggur mest á eru komnar vel á leið. 

Stærsta verkefnið er frjálsíþróttavöllurinn sem verður aðal mótsvæðið og þar verða einnig opnunar- og lokahátíðir mótsins. Við höfum fengið til liðs við okkur danskan verkfræðing að nafni Peter W. Jessen sem starfar hjá VST verkfræðistofu til að aðstoða okkur við gerð vallarins, en hann er sérfræðingur í gerð íþróttavalla og hefur til að mynda séð um gerð 6 íþróttavalla hér á landi. Peter kom til Grundarfjarðar í vor leist mjög vel á aðstæður hérna og telur að þessi framkvæmd ætti ekki að kosta okkur Grundfirðinga stórfé, þar sem aðstæður eru frekar hagstæðar.

Önnur stór framkvæmd eru sparkvellir fyrir knattpyrnuiðkun.  Þörf er á 4-5 minni völlum, en ekki er hægt að notast við núverandi völl þar sem þar verður keppt í frjálsum íþróttum alla helgina. Því var nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir við gerð knattspyrnuvalla, sem þó eru hannaðir annarsvegar sem tjaldsvæði og hinsvegar skrúðgarður, því við teljum það vera þörf á hvoru tveggja hér í bæjarfélaginu. Í Steinatjörninni verða gerðir 2 sparkvellir sem síðan verða skrúðgarður bæjarins og svæði fyrir aðra útivist eftir unglingalandsmót. Aðrir 2 vellir verða neðan við íþróttahúsið við Grafargilið. Þessir 2 vellir eru hannaðir sem tjaldsvæði og verða notaðir sem tjaldsvæði bæjarins ásamt gryfjunni við Grafargilið að móti loknu.

Framkvæmdir við bæði þessi svæði eru í fullum gangi og reynt verður að koma þeim undir gras hið allra snarasta svo svæðin nái að jafna sig fyrir unglinalandsmótið næsta sumar. Við hönnun svæðana var haft í huga að geta nýtt þessi svæði fyrir bæjarfélagið í framtíðinni þannig að það fjármagn sem við fáum til framkvæmda fyrir mótið sé notað í eitthvað sem nýtist bæjarfélaginu eftir mótið. Með þessum framkvæmdum er um leið gengið frá opnum og ófrágengnum svæðum í bænum og vonandi eiga bæjarbúar og gestir bæjarins eftir að geta notið góðra stunda á þessum svæðum í nánustu framtíð.

Teikningar:

Steinatjörn

Tjaldsvæði við Grafargil

Tjaldsvæði í gryfju