Í framhaldi af skrifum í bæjardagbókina 26. ágúst sl. birtist nú frekari fréttir af stöðu undirbúnings stofnunar Fjölbrautarskóla Snæfellinga. Ennfremur má benda á umfjöllun Skessuhornsins frá 15. ágúst sl.

 

“Fyrsta verkstigi undirbúnings að stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga er nú lokið.  Á fundi í Ólafsvík þann 20. ágúst sl. voru teknar ákvarðanir um tillögu að framtíðarsýn, kennslufræði og námsskipulagi skólans, einnig uppbyggingu og  skilyrðum sem skólahúsnæðið þarf að uppfylla. Þessar tilllögur eru forsenda frekari ákvörðana innan menntamálaráðuneytis og áframhaldandi undirbúnings,  ásamt því að leggja arkitektum skólabyggingar línurnar, en þeir hafa þegar hafið hönnunarvinnuna”.(sjá heimild neðar).

Tillagan er grundvölluð á vinnu tveggja vinnuhópa sem hittust í maí og júní . Annars vegar var 17 manna hópur sem í voru  fulltrúar ýmissa aðila og sjónarmiða, s.s. framhaldsskólanefnd sveitarfélaganna, fulltrúum frá menntamálaráðuneyti, frá foreldrum úr Stykkishólmi, Snæfellsbæ og Grundarfirði, fjarnema úr Grundarfirði, formanni húsnæðisnefndar sveitarfélaganna, auk aðfenginna ráðgjafa s.s. kennsluráðgjafa frá Háskóla Íslands, framhaldsskólakennara með mikla reynslu í fjarnámi og skólameistara .

Menntamálaráðuneytið fékk Susan Stuebing, virtan bandarískan ráðgjafaarkitekt sem búsett er í Hollandi, til samstarfs við undirbúning að stofnun skólans.

Hins vegar voru fulltrúar væntanlegra nemenda, þ.e.  vinnuhópur skipaður um 16 nemendum af Snæfellsnesi úr 9. og 10. bekk grunnskólans og af framhaldsskólastigi sem fundaði í Stykkishólmi í júní sem settu saman sínar hugmyndir um skipulag kennslu og félagslífs.

 

Fyrir fundinum í Ólafsvík 20. ágúst voru þrjár megintillögur um skipulag skólans. Tillögur Aog B voru framsæknar og gerðu ráð fyrir opnu rými með vinnuaðstöðu, auk upplýsingasvæðis (bókasafn), matsalar, kennslustofa, félagsaðstöðu, lítillar íþróttaaðstöðu auk stjórnunarálmu.  Tillaga C gerði ráð fyrir að allir nemendur hefðu vinnuaðstöðu í stóru rými, en þá féll út upplýsingasvæðið og önnur aðstaða fyrir nemendur.  Fundarmönnum gekk nokkuð greiðlega að komast að niðurstöðu, og var sátt um tillögu A með ákveðnum breytingum. 

Sigurður Björgúlfsson frá Vinnustofu Arkitekta (og annar til) sat fundinn.

 

Á fundi stýrihóps fyrr í sumar var ákveðið m.a á grundvelli skoðanakönnunar IBM um framhaldsskólann og álits Jóns Torfa Jónassonar prófessors að miða nemendafjölda við 170 nemendur.  Er miðað við þann nemndafjölda í hönnun skólans.

 

Á fundi degi síðar, 21. ágúst,  með fulltrúum húsnæðisnefndar og sveitarfélaganna var einnig sátt um á útfærslu sem vinnuhópurinn lagði til.   Fram kom mikil ánægja með þá vinnu sem búin var og var ráðuneytinu sérstaklega þakkað hversu vel hefur verið staðið að undirbúningum.

 

Á næstu dögum verður lögð lokahönd á skýrsluna um skipulag Fölbrautaskóla Snæfellinga og hún lögð fyrir ráðherra til staðfestingar.

Samantekt 27. ágúst   Sigríður Finsen

 

Heimildir: Heimasíður Fjölbrautaskólans og Grundarfjarðarbæjar