AÐGERÐAÁÆTLUN GRUNDARFJARÐARBÆJAR

Aðgerðaáætlun Grundarfjarðarbæjar er lögð fram til þess að bregðast við því alvarlega ástandi sem nú er uppi í efnahags-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar. Minnkandi tekjur bæjarsjóðs, aukinn kostnaður og fjöldi vísbendinga um þrengingar í fjármálum sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila, kalla á skýr skilaboð um meginlínur og markmið í viðbrögðum Grundarfjarðarbæjar.  Þær áherslur sem hér eru kynntar munu endurspeglast í fjárhagsáætlanagerð stofnanna og fyrirtækja bæjarins.

Meginmarkmið Grundarfjarðarbæjar við þær aðstæður, sem nú eru uppi, er ábyrg fjármálastjórn, stöðugleiki í rekstri og trygging grunnþjónustu fyrir íbúa.

Samkomulag  hefur náðst milli meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar um þær megináherslur sem hér eru kynntar, enda telur bæjarstjórn nauðsynlegt að starfa náið saman við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Sátt  er um eftirfarandi áherslur og verkefni:

  • Grunnþjónusta við íbúa varin
  • Til að mæta þrengri fjárhagsstöðu mun bæjarstjórnin sameiginlega skilgreina grunnþjónustu bæjarfélagsins og leggja áherslu á að skerða hana ekki.
  • Engin áform eru um uppsagnir starfsfólks að svo stöddu, en dregið verður úr kostnaði og nýráðningum.
  • Stóraukins aðhalds verður gætt í innkaupum og stefnt að  sparnaði í þeim á næstu mánuðum og árum.
  • Leitast verður við að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Forgangsröðun framkvæmda verður endurskoðuð en framkvæmdum eða verkefnum, sem geta beðið eða kalla á aukinn rekstrarkostnað, verður frestað eða dregið úr kostnaði vegna þeirra. Við ofangreint mat verði jafnframt tekið mið af áhrifum á atvinnustig.

Fulltrúar bæjarstjórnar munu ásamt bæjarstjóra kynna niðurstöðu fjárhagsáætlunar fyrir starfsmönnum stofnana.