Fjölbrautaskóli Snæfellinga leitar eftir samstarfi

Starfsfólk FSN vinnur nú að stofnun nýrrar brautar við skólann. Vinnuheiti brautarinnar er Öryggis- og þjónustubraut og er stefnt að því innritun nemenda inn á brautina verði haustið 2012.  Um er að ræða tveggja ára nám. Með brautinni verður leitast við að auka námsframboð  og koma til móts við fleiri nemendur og samfélagið sem stendur að skólanum. Námið  er hugsað sem tækifæri fyrir þá nemendur sem vilja vera vel undirbúnir fyrir þátttöku í atvinnulífinu. Brautin er góður grunnur fyrir frekara nám og býður upp á undirbúning fyrir ólíkar greinar atvinnulífsins

Við leitum eftir samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Hugmyndin gengur út á að nemendur séu í bóklegu námi í þrjár annir og eina önn í vettvangsnámi hjá þeim fyrirtækjum/stofnunum sem samstarf næst við.  Meðal lokamarkmiða brautar er að þjálfa nemendur upp í almennum öryggisþáttum, samskiptum og þjónustu, fjármálalæsi ásamt þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi og auka jafnréttisvitund þeirra.

Fyrirtæki sem áhuga hafa á að hefja samstarf við Fjölbrautaskólann hafi vinsamlegast samband við Pétur Inga Guðmundsson aðstoðarskólameistara í síma 430 8400 eða sendið tölvupóst á petur@fsn.is Einnig er hægt að hafa samband við Helgu Lind helgal@fsn.is fyrir Snæfellsbæ og sunnanverða Vestfirði, Jakob  jakob@fsn.is fyrir Grundarfjörð og Berglind berglind@fsn.is fyrir Stykkishólm og Helgafellssveit.