Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa haustið 2004 og hefur því lokið sínu 10. starfsári. Nú í vor útskrifuðust 23 nemendur frá skólanum og fjöldi útskrifaðra nemenda er þá kominn yfir 240.  

Á næstu haustönn er hugmyndin að minnast þessara tímamóta með margvíslegum hætti. Eitt af því sem boðið verður upp á í september er að bæði einstaklingar sem og hópar komi í heimsókn á skólatíma og fylgist með og fái kynningu á skólastarfinu. Þeir sem vilja þekkjast þetta boð eru beðnir um að hafa samband við skólann og við finnum heppilegan tíma fyrir heimsókn. Snemma í október verður síðan boðið til fagnaðar þar sem velunnarar skólans, fyrrverandi og núverandi nemendur og starfsfólk kemur saman til þess að minnast þessara tímamóta.

Ein þeirra hugmynda sem skólastefna FSN byggir á er verkefnamiðað nám, leiðsagnarmat og nýting upplýsingatækni í víðum skilningi.

Skólinn er með framhaldsdeild á Patreksfirði ætluð nemendum af sunnanverðum Vestfjörðum og hefur hún verið starfrækt síðan 2008.

Einnig er boðið upp á dreif- og fjarnám frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í samvinnu við tíu framhaldsskóla sem auglýsa undir merkjum Fjarmenntaskólans. Það er ekki aðeins að kennsluhættir skólans séu fjölbreyttir heldur er nemendahópurinn líka mjög fjölbreyttur.

Við útskrift nú í maí flutti nýstúdent ræðu þar sem hann m.a. lýsti upplifun sinni af því að vera fjarnemandi frá FSN, búandi í Reykjanesbæ. Við útskriftina hitti þessi nemandi í fyrsta skipti marga af þeim kennurum sem hann hefur numið hjá. FSN er framsækinn framhaldsskóli og við sem þar störfum erum full bjartsýni á framhaldið þar sem við teljum okkur finna að við njótum velvildar og stuðnings frá því samfélagi sem við störfum í.

 

Útskriftarnemar, starfsfólk og aðrir góðir gestir

Að ná settu marki er eftirsóknarvert og þessi hópur sem hér útskrifast í dag hefur sannarlega náð markmiðinu að ljúka formlegri menntun á framhaldsskólastigi. Það að ná settu marki leiðir oftar en ekki til þess að við setjum okkur ný markmið og í mínum huga á það að vera þannig allt okkar líf hvort sem þau snúa að formlegri menntun, árangri í starfi eða í stærsta verkefninu sem er að vera manneskja. Við skulum ekki vanmeta hversdagslega hluti því oftar en ekki eru það þeir sem skipta sköpum um það hvernig okkur líður og hvernig okkur farnast. Gott samband við fjölskyldu og vini verður seint ofmetið og mig langar til þess að benda ykkur á að halda í slíkt. Starfsfólk FSN býr við þau forréttindi að vinna með ungu fólki og fyrir það erum við þakklát.

Ég ætla að leyfa mér að koma hér að persónulegum tímamótum í mínu lífi en á þessu vori á ég 40 ára stúdentsafmæli. Við sem útskrifuðumst vorið 1974 fögnuðum ekki einungis þeim áfanga heldur einnig 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Tækninni fleygði fram á þeim tímum ekki síður en í dag sem marka má af því að þetta var fyrsta hátið á Íslandi sem var sjónvarpað beint til allra landsmanna. Svo ég haldi áfram með þessa tengingu að þá var hálfrar aldar afmæli lýðveldisins Íslands fagnað 17.júní 1994 á Þingvöllum en merkilegt nokk þá átti ég 20 ára stúdentsafmæli. Svona í framhjáhlaupi þá var þessi hátíð kölluð þjóðvegahátíðin því ótrúlegur fjöldi gesta sem hugðist sækja Þingvelli heim þennan dag sátu stóran hluta af deginum í bílalest á milli Reykjavíkur og Þingvalla. En árið 1994 er fyrir fleiri sakir merkilegt og þá ekki síst fyrir það að sum ykkar fæddust þetta ár. Þar sem helsta kennslugreinin mín er stærðfræði vil ég hvetja ykkur til þess að reika nú út hvaða stúdentsafmæli þið getið fagnað þegar þjóðin fagnar 100 ára afmæli íslenska lýðveldisins?

Svo ég haldi áfram á þessari braut þá voru sex skólar á Íslandi með heimild til þess að mennta og útskrifa stúdenta, í dag eru þeir yfir 30. Á þessum tíma eins og í dag leituðu yfirvöld menntamála og skólafólk að nýjum leiðum til þess að mæta fleiri nemendum með nám við hæfi og til varð áfangakerfi og fyrstu fjölbrautaskólarnir tóku til starfa. Við erum enn að leita að nýjum leiðum til þess að mæta ört vaxandi fjölda framhaldsskólanema með innihaldsríkt nám sem nýtist þeim í atvinnulífinu og fyrir frekara nám. Ný aðalnámskrá framhaldsskóla var gefin út 2011 en þar er aukin áhersla á hæfni. Hér í FSN hafa verið tekin skref í þá átt að hugsa nám nemandans út frá nýjum áherslum og frekari skef verða tekin nú í haust þegar allir nýnemar innritast á brautir í þessu nýja kerfi.

Þeir nýnemar sem innritast á þessu vori koma til með að geta valið um nám til stúdentsprófs eða framhaldsskólaprófs. Námstími til stúdentsprófs verður að meðaltali 7 annir í stað 8 og námstími til framhaldsskólaprófs þrjár til fjórar annir. Helsta nýjungin verður listnámsbraut sem hægt verður að ljúka hvort sem er til stúdents- eða framhaldsskólaprófs. sem getur verið hvort sem er til stúdentsprófs eða framhaldsskólaprófs.

Vonadi verða þessar breytingar nemendum til góða þar sem enn er verið að auka frelsi nemandans og þar með ábyrgð til þess að setja námið sitt saman og þar er megin hugsunin að nemandinn verði meðvitaðri um til hvaða starfa eða frekara náms hann stefnir. Í þessu sambandi er vert að minnast á að háskólastigið er nú þegar að vinna að útgáfu svokallaðra aðgangsviðmiða sem ætti að verða nemendum leiðarvísir við námsval.

Þar sem FSN er að ljúka sínu 10.starfsári langar mig til þess að tilkynna að boðið verður til afmælishátíðar nú í haust. Eitt af því sem við viljum gjarnan koma betur til ykkar er að skólinn er opinn fyrir þá sem vilja koma og kynnast starfseminni betur.

Nú langar mig til þess að hlaupa aðeins á sögunni um aðdraganda að stofnun skólans.

 

Í ársbyrjun 2000 var undirritað samkomulag sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi um staðsetningu framhaldsskóla á Nesinu. Á næstu tveim árum unnu heimamenn að þessu verkefni, með þeim árangri að ákvörðun er tekin snemma árs 2013 um stofnun skólans og verkefnastjóri ráðinn að verkinu. Sérfræðingahópur ásamt heimamönnum mótuðu þá skólastefnu sem m.a. skólahúsnæðið er hannað í kringum. Metnaður var mikill og menn voru ákveðnir í að stofna skóla sem mætti þörfum nemenda á tuttugust og fyrstu öld þar sem upplýsingatæknin léki lykilhlutverk. Að þessar nýstárlegu hugmyndir um kennslu og kennsluhúsnæði á framhaldsskólastigi skulu hafa náðst í geng er merkilegt því vilji til breytinga er oft meiri en framkvæmdin. Ég fullyrði að kennslufyrirkomulag þessa skóla hefur haft áhrif á kennara í hinum ýmsu skólaum til þess að breyta sínum áherslum.

Aðeins aftur að sögunni.

Seint á árinu 2003 er hafist handa við bygginguna og hún að stærstum hluta tekin í notkun í ágúst 2004. Fyrsta skólasetning var 30.ágúst 2004. Þessari sögu verður gerð betur skil þegar að sjálfu afmælinu kemur.

 

Ágætu útskriftarnema

Það að útskrifast úr framhaldsskóla  er merkur áfangi. Því er þannig varið hjá okkur starfsmönnum skólans að á sama tíma og við samgleðjumst ykkur  þá er mikil eftirsjá af ykkur úr skólanum, við munum sakna ykkar en þið vitið líka að við komum til með að komast yfir það og eignast nýjan fyrirmyndarhóp til þess að gleðjast með.

Vonandi hefur dvöl ykkar í framhaldsskóla gert ykkur gott og hjálpað ykkur til að þroskast á jákvæðan hátt og staðist væntingar ykkar til náms. Það að hafa tileinkað sér góða vinnusiði er ekki síður mikilvægt en tiltekinn þekking á ákveðnu sviði enda kemur það ítrekað í ljós þegar háskólakennarar eru spurðir um hvaða hæfni nýnemar þurfi að búa yfir við upphaf háskólanáms þá nefna þér gjarnan jú þeir þurfa að vera góðir í kjarnagreinum en mestu skipti að þeir hafi vanið sig á skipulögð vinnubrögð og séu færir í að vinna með öðrum. Vonandi eruð þið vel undirbúin til þess að takast á við ný verkefni hvort sem það tengist atvinnu eða frekara námi.

Ég óska ykkur og aðstandendum ykkar innilega til hamingju með þennan merka áfanga og óska ykkur alls hins besta.

 

 


 

Þá er komið að lokum þessarar athafnar