Nýrri tækni beitt við borun fyrir Grundarfjörð

Boruð verður ný hola á Berserkseyri fyrir hitaveituna í Grundarfirði. Beitt verður nýjustu tækni við borun hennar, svokallaðri stefnuborun. Þótt sú aðferð sé talsvert dýrari en hefðbundin aðferð, þar sem borað er beint niður í jörðina, er þess vænst að vinnslugetan verði meiri, en komið hefur í ljós að í holunni sem fyrir er hefur vatnið afar óheppilega efnasamsetningu.

Sem kunnugt er hefur fundist heitt vatn í Kolgrafarfirði, á jarðhitasvæði sem yfirleitt er kennt við Berserkseyri. Rannsókn jarðhitakerfisins er nú komin nægjanlega langt á veg til að flokka megi það sem vinnslusvæði. Hins vegar er vatnið í því salt og tærandi. Það veldur ákveðnum erfiðleikum við nýtingu sem sigrast verður á áður en nýting svæðisins til hitaveitu telst möguleg. Orkuveita Reykjavíkur hefur fullan hug á að yfirvinna þann vanda og undirbýr nú aðgerðir til þess.

Framundan eru mælingar á borholunni sem var í prófunum síðasta vetur, hola BS-01. Ákveðið hefur verið að mynda holuna með fullkominn hljóðsjá og kanna hvernig vatnsleiðandi sprungur í holunni liggja. Það mun veita dýrmætar upplýsingar sem nýtast við staðsetningu og hönnun á næstu borholu. Að auki verður holan jarðlaga- og hitamæld.

 

Hafist handa í janúar

Í janúar 2007 er gert ráð fyrir að framkvæmdir við borun nýrrar vinnsluholu hefjist. Ætlunin er að bora svokallaða stefnuholu. Hún er þannig byggð upp að fyrst er borað lóðrétt niður og síðan er borinn sveigður útfrá lóðréttu allt að 30° horni. Þessi borunaraðferð gefur möguleika á að skera tvær uppstreymisrásir heits vatns á svæðinu. Núverandi borhola BS-01 sker einungis aðra rásina. Líkur benda til þess að því dýpra sem sprungurnar eru skornar því hærra og stöðugra hitastig fáist úr jarðhitakerfinu svo og heppilegri efnasamsetning heita vatnsins. Dæluprófun á borholu BS-01 á Berserkseyri lauk 5.maí síðastliðinn. Í sumar var síðan fylgst með því hvernig jarðhitakerfið jafnaði sig. Skýrsla Íslenskra Orkurannsókna Efnasamsetning og hitamælingar í laug Laugaskeri við Berserkseyri 1.apríl til 11.ágúst 2006 lýsir svörun jarðhitageymisins þegar dælingu var hætt.

Í sumar unnu Grundarfjarðarbær og Vegagerðin að yfirborðsfrágangi nokkurra gatna í bæjarfélaginu. Til að koma í veg fyrir að raska þyrfti götunum síðar ákvað Orkuveitan að leggja hluta dreifikerfis hitaveitu samhliða þeim framkvæmdum. Þar sem þvera þurfti göturnar voru pípur lagðar til undirbúnings lagningar dreifikerfisins.