Sveitarfélögin á Snæfellsnesi settu í sumar á laggirnar samstarfsnefnd sem er ætlað að meta kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna.  Á fundi Héraðsnefndar Snæfellinga með sveitarstjórnarmönnum í vetur kom fram að gott væri fyrir sveitarfélögin að vinna slíka úttekt og huga þannig að álitamálum í sameiningu sveitarfélaganna, m.a. í ljósi áfoma ríkisvaldsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins. 

Fram hefur komið tillaga frá nefnd félagsmálaráðherra um sameiningu sveitarfélaga að kosið verði um sameiningu sveitarfélaganna í apríl á næsta ári.  

Nefndina skipa: Benedikt Benediktsson og Brynjar Hildisbrandsson úr Helgafellssveit, Dagný Þórisdóttir og Hilmar Hallvarðsson frá Stykkishólmsbæ, Eggert Kjartansson og Guðbjartur Gunnarsson úr Eyja – og Miklaholtshreppi, Gísli Ólafsson og Sigríður Finsen úr Grundarfirði og Gunnar Örn Gunnarsson og Jón Þór Lúðvíksson úr Snæfellsbæ.  Kolbeinsstaðahreppur ákvað að taka ekki þátt í þessu starfi. Formaður nefndarinnar er Gísli Ólafsson.  Nefndin hefur ráðið Deloitte hf. til að gera úttekt á fjárhag sveitarfélaganna og Ráðgjafafyrirtækið Alta til að vinna að athugun á öðrum þáttum í starfsemi sveitarfélaganna.