Rúmlega 100 nemendur hafa staðfest skólavist sína í Fjölbrautaskóla Snæfellinga á haustönn 2004.

Undirbúningur gengur vel og gengið hefur verið frá ráðningu nær allra starfsmanna. Fastir starfsmenn verða í kringum 10 fyrsta skólaárið, 

þ.e. skólameistari, aðstoðarskólameistari, fimm kennarar, fjármálastjóri/skrifstofustjóri og húsvörður. Auk þess hefur verið auglýst eftir þroskaþjálfa/sérkennara til að sjá um kennslu á starfsbraut fyrir fatlaða nemendur. Verið er að semja við fimm stundakennara sem kenna einn áfanga hver (4-6 stundir á viku). Ekki hefur verið gengið frá fyrirkomulagi ræstinga enda verður húsið að hluta í byggingu eftir að kennsla hefst og mun taka miklum breytingum á fyrsta skólaárinu. Líklegt er að ræstingar verði leystar til bráðabirgða þar til starfsemi í húsinu er að komast í sinn rétta farveg.

 

Fyrir skömmu var haldið námskeið fyrir kennara þar sem nýir kennsluhættir voru kynntir og hinar nýstárlegu aðferðir sem notaðar verða við kennsluna þjálfaðar. Lára Stefánsdóttir stjórnaði námskeiðinu, en hún er einn fremsti sérfræðingur landsins í nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi.

 

Vefur skólans (fsn.is) er í smíðum og er ætlunin að hann verði tilbúinn í kringum mánaðamótin júlí-ágúst. Á vefnum verður skólanámskrá skólans birt, auk alls kyns upplýsinga um skólastarfið. Þar á meðal verða upplýsingar um bækur sem nemendur þurfa að útvega sér áður en skólastarf hefst.

 

Skólaakstur hefur verið boðinn út og verið er að yfirfara tilboð.

 

Mikill gangur er í skólabyggingunni þessa dagana og fjölmennt lið iðnaðarmanna vinnur þar fram á kvöld. Augljóst er að allir ætla að leggjast á eitt til þess að tímaáætlunin standist og við getum hafið kennslu 30. ágúst eins og ætlunin er.