Þessa vikuna stendur yfir fjórða námskeiðið í sumar en alls verða þau átta talsins.

Meðfylgjandi eru myndir frá starfinu en ýmislegt hefur verið brallað það sem af er sumri.

Á smíðavelli var tálgað og smíðað úr afgangstimbri og pappa það sem krökkunum datt í hug. Þar má nefna dúkkuhús, dúkkuskiptiborð, sverð, skjöldur, indjánatjöld, snaga, hálsfesti, göngustafi, töfrasprota, álfa, báta og skemmtiferðaskip.

Á ævintýranámskeiði var drullumallað, leirað og föndrað, farið út að leika í rokinu, farið í leiki, grillaðir sykurpúðar, blásnar risa sápukúlur og fleira.

Í listasmiðjum hafa fjölmörg listaverkin orðið til, til dæmis mósaík, litríkar kýr, Pop-Art myndir í anda Andy Warhol, mandölur, skrapmyndir, krítarmyndir og margt fleira.

Mánudaginn 15. júlí hefst nýtt námskeið, vikulangt ævintýranámskeið og er skráning á það námskeið, ásamt öðrum, enn í fullum gangi.

Skráningareyðublöð er hægt að nálgast hér á vef Grundarfjarðarbæjar eða á bæjarskrifstofunni en eyðublöðunum skal skilað þangað fyrir upphafsdag hvers námskeiðs.

Á vefnum er einnig hægt að finna upplýsingar um öll námskeiðin sem í boði eru í sumar.

 

Vikuna fyrir bæjarhátíðina okkar "Á góðri stund" verður smiðjunámskeið þar sem boðið verður uppá ýmiss konar smiðjur. Þar verður boðið uppá tónlistarsmiðju þar sem við búum okkur til hljóðfæri, fáum tónlistarmenn í heimsókn og spilum og syngjum með þeim.

Einnig leikjasmiðju þar sem við förum í ýmsa leiki, bæði nýja og gamla. Hátíðarsmiðju þar sem við undirbúum okkur undir skrúðgöngur bæjarhátíðarinnar, búum til grímur, hatta og skraut.

Að lokum verður boðið uppá danssmiðju þar sem við fáum til okkar frábæran danskennara sem ætlar að kenna krökkunum að dansa.

Afraksturinn verður svo sýndur á fjölskylduskemmtun "Á góðri stund" laugardaginn 27. júlí.

Í ágúst verður svo boðið uppá tvenns konar námskeið, haustsmiðju fyrir yngri krakkana þar sem ýmislegt verður brallað og lært og útivist fyrir eldri krakkana þar sem farið verður í fjallgöngur, gönguferðir og fjöruferðir.

Með kveðju,

Ólöf Rut og Herdís Lína