Skólastarfið hefur farið vel af stað hjá okkur, nemendur og kennarar brosandi út að eyrum. Í vetur eru 100 nemendur skráðir í skólann í 1. – 10. bekk.  Á yngsta stigi, 1. – 4. bekk eru 45 nemendur,  26 drengir og 19 stúlkur,  á miðstigi,  5. – 7. bekk eru 28 nemendur, 7 drengir og 21 stúlka,  á elsta stigi eru  28 nemendur, 10 drengir og 17 stúlkur.

Tveir nýir kennarar hafa bæst í starfsmannahópinn en það eru þau Helga Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólastjóri og umsjónarkennari í 6. og 7. bekk  og Jóhannes Guðbjörnsson íþróttakennari og umsjónarkennari í 6. og 7. bekk.  Bjóðum við þau hjartanlega velkomin til starfa í skólanum okkar.

Breytingar hafa verið gerðar í sambandi við skólamáltíðir nemenda og starfsfólks.  Nú er maturinn eldaður í eldhúsi leikskólans og ferjaður upp í grunnskóla og virðist þetta fyrirkomulag ætla að henta okkur ágætlega.

Grunnskólinn hefur sett sér það markmið að vera framarlega í notkun nýjustu tækni í skólastarfinu.  iPAD menningin hefur verið tekin upp í skólanum sem kennslutæki fyrir nemendur og kennara og erum við að læra á þetta merkilega tækniundur þessa dagana.  Hugrún Elísdóttir kennari sem er í námsleyfi í vetur, er að mennta sig enn frekar í upplýsingatækni, verður  umsjónarmanneskja með þessari tæknivæðingu skólans. Það verður spennandi að takast á við þessar nýju aðstæður og  það verður horft til þess af öðrum skólum hvernig okkur tekst til.

Smám saman er allt að færast í eðlilegt horf í skólastarfinu jafnt sem tómstundastarfi nemenda, mikið líf og fjör. Hjúkrunarfræðingurinn byrjaður að flúorskola og sérfræðingar Skólaþjónustunnar byrjaðir að heimsækja okkur.

Hvetjum við nemendur til að sinna náminu vel í vetur og foreldra að aðstoða börnin sín og vera í góðu samstarfi og samskiptum við starfsmenn skólans.

Við erum svo lánsöm að nemendum okkar er áfram boðið upp á ávaxtastund eins og verið hefur síðustu ár. Það er hún Bibba okkar sem á heiðurinn að því núna eins og áður að þessi góða stund skuli vera áfram í skólanum. Færum við henni og öllum styrktaraðilum kærar þakkir fyrir vinnu og fjárframlög.  Þeir sem styrkja þetta árið eru Landsbankinn, Blossi  ehf., TSC ehf. og Jón og Ásgeir ehf.

Í Grunnskóla Grundarfjarðar tökum við á móti öllum með bros á vör og gleðjumst yfir hverjum degi og hverju framfaraspori.