Það er sannarlega fjölbreytt flóra viðfangsefna sem sveitarfélögin hafa á sínu borði og þurfa að sinna. Einmitt það gerir sveitarstjórnarmálin skemmtileg og áhugaverð. Þær átta vikur sem liðnar eru frá því undirrituð hóf störf hjá Grundarfjarðarbæ hafa ekki boðið uppá neina lognmollu. Hér koma nokkrir punktar um verkefni bæjarins og starf bæjarstjórnar.

Verklegar framkvæmdir

Af verklegum framkvæmdum má helst nefna viðbyggingu og endurbætur á húsnæði leikskóla. Anddyri, fatageymsla og tilheyrandi rými var stækkað um 25-30 m2, skipt var um glugga, klæðningu, þakkant og þakplötur á eldri hluta skólans, auk tilheyrandi endurbóta á hluta lóðar.

Vegna byggingar G.Run á hátæknilegu fiskvinnsluhúsi er ráðist í gatnagerð nýrrar götu sem liggur milli Sólvalla og Nesvegar. Verkís sá um hönnun götunnar og samið var við ÍSTAK um að annast verkið í svokallaðri stýriverktöku. Þótti hagkvæmt að fela fyrirtækinu að hafa umsjón með því fyrir bæinn, enda samlegð í því með framkvæmdum við bygginguna fyrir G.Run sem ÍSTAK annast. Af sömu ástæðu standa nú yfir framkvæmdir á vegum Veitna við endurnýjun kaldavatnslagnar að fiskvinnslu G.Run, en sú framkvæmd nýtist fleirum og leysir t.d. langvarandi þörf hafnarinnar fyrir endurbætur á vatnslögn. Samhliða þessu raski hefur bærinn leitað leiða til að ljósleiðari verði lagður í þær götur sem nú eru undir framkvæmdum, þannig að nýtist stofnunum og fyrirtækjum.

Ljósleiðaralögn í dreifbýli er nú á lokametrunum. Tengingu verður komið á í Framsveit á næstu dögum, og mjög fljótlega í Útsveit. Ljósleiðarinn mun gjörbreyta aðstöðu fólks í dreifbýli, ekki síst fyrirtækja, og gera okkar svæði samkeppnishæfari við þéttbýlli svæði landsins.

Dvalarheimilið Fellaskjól stendur í stórræðum, en nýlega var viðbygging við húsnæði heimilisins fokheld. Með henni fást endurbætur á herbergjum og aðstöðu starfsfólks.

Embætti skipulags- og byggingafulltrúa

Frá því í ágústbyrjun höfum við ekki haft starfsmann í embætti skipulags- og byggingarfulltrúa. Það hefur skapað gríðarlegt álag á mörgum stöðum hjá okkur. Það er veruleiki mjög margra sveitarfélaga landsins, að ekki fæst lengur fólk í þessi störf. Starfsumhverfi sérhæfðra einmenningsembætta eins og þessara er einfaldlega ekki lengur aðlaðandi í augum vel menntaðs fólks. Það kýs fremur að vinna í teymum, en að bera eitt mikla ábyrgð á sérhæfðu sviði, þar sem kröfur snaraukast, ár frá ári. Við þessu þurfa sveitarfélög víða um land að bregðast. Við vonumst til að geta leyst úr okkar stöðu fljótlega, til bráðabirgða a.m.k., en biðjum viðskiptavini okkar og íbúa afsökunar á óþægindum sem þetta kann að valda. Skipulags- og umhverfisnefnd vil ég þakka sérstaklega fyrir sína vinnu undir þessum kringumstæðum, en nefndin hefur haft mörg mál til afgreiðslu, sem er ánægjulegt.

Önnur verkefni

Sveitarfélög á Snæfellsnesi sinna málsvörn vegna kröfugerðar ríkisins í þjóðlendumálum, en í okkar sveitarfélagi gerir fjármála- og efnahagsráðherra kröfu um að hluti jarðarinnar Hrafnkelsstaða verði þjóðlenda, auk Eyrarbotns sem hingað til hefur verið talin tilheyra ríkisjörðinni Hallbjarnareyri. Um það má lesa á vef bæjarins.

Stofnanir bæjarins mæta nú nýjum kröfum í persónuverndarlöggjöf sem tók gildi um miðjan júlí. Með henni er verið að tryggja ákveðin grundvallarréttindi um vernd persónuupplýsinga einstaklinga og leiða lögin t.d. af sér margvíslegar breytingar á verklagi skóla og fleiri stofnana við skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Þetta nær til birtingar ljósmynda á Facebook-síðum, nýrra skjalaskápa sem kaupa þarf o.m.fl.  

Í gangi er endurskoðun aðalskipulags bæjarins og í haust samþykkti bæjarstjórn að ráðast í endurskoðun á fjölskyldustefnu Grundfirðinga og hefur sett af stað vinnu við það. Auk þess vill bæjarstjórn skerpa fókusinn og ákveða markviss skref við uppbyggingu í menningarmálum, m.a. hlutverk menningarhúsa og starfsemi þeirra. Allar nefndir bæjarins fara vel af stað og það er dýrmætt fyrir bæjarstjórn og bæjarbúa, að eiga þar áhugasamt fólk sem vill eiga frumkvæði að góðum hlutum.

Atvinnumál og auðlindir

Síðast en ekki síst ber að nefna atvinnumál í samfélaginu okkar. Mjög margt jákvætt og ánægjulegt hefur átt sér stað í byggðarlaginu og á svæðinu okkar, Snæfellsnesi, og ýmislegt er í pípunum. Við Grundfirðingar höfum þó einnig mætt áföllum í atvinnulífi og þjónustu, sem eru okkur þungbær. Breytingar í sjávarútvegi ber hæst. Fyrir skemmstu tilkynnti Arion banki um lokun útibús síns og fjölmörgum spurningum er ósvarað um hvernig bankinn hyggst leysa þarfir viðskiptavina sinna. Bæjarstjórn hefur leitað eftir samstarfi og upplýsingum frá fyrirtækjum í bænum í tengslum við þetta, auk þess að eiga í samtali við bankann. Þetta er hluti af miklum breytingum sem eiga sér stað á heimsvísu og talað er um sem “stafræna umbreytingu” eða “fjórðu iðnbyltinguna”. Þær breytingar munu hafa víðtæk áhrif á störf, þjónustu og samfélagið allt. Þar verða okkar samfélög að gæta þess að verða ekki útundan, heldur nýta tækifærið sem felst í hraðri tækniþróun, sem ætti ekki síst að geta komið landsbyggðunum til góða. Auk þess megum við aldrei missa sjónar á dýrmætum auðlindum sem svæðið okkar Snæfellsnes býr yfir og tækifærunum til að skapa úr þeim enn frekari verðmæti. Það er efni í annan pistil, fljótlega.

Grundarfirði, 2. október 2018,
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri