Rekstraraðili Farfuglaheimilisins á Grundarfirði, Johnny Cramer, tók nýverið á móti HI-Quality gæðavottun Alþjóðasamtaka Farfugla (Hostelling International). Vottunin er veitt fyrir gæði í aðbúnaði og þjónustu og innra gæðaeftirlit.

Farfuglaheimili víða um heim hafa unnið eftir gæðakerfinu frá árinu 2004 en það hefur hingað til einungis staðið stórum heimilum til boða. Gestgjafar þriggja farfuglaheimila hérlendis tóku því að sér að þróa og aðlaga viðmið fyrir smærri heimili fyrir Hostelling International í samvinnu við Farfugla á Íslandi. Innan gistikeðjunnar starfa yfir 4000 farfuglaheimili víða um heim og mörg smærri heimili hafa beðið spennt eftir niðurstöðu þróunarvinnu á gæðakerfinu. Ásamt Johnny fengu rekstraraðilar Farfuglaheimilanna á Akranesi og Bíldudal einnig vottun.

Það er Farfuglum mikill heiður að til þeirra hafi verið leitað til að stýra þessu þróunarverkefni, en fyrst þegar kerfið var tekið í notkun fyrir stór heimili tók einmitt starfsfólk Farfuglaheimilisins í Laugardal þátt í smíð þess ásamt alþjóðlegum kollegum sínum. Öll heimilin þrjú bjóða upp á fyrirmyndar aðstöðu fyrir ferðamenn og hafa fengið afar góðar umsagnir gesta í gegnum tíðina.