Frumsýning á Jóladagatalinu var í Samkomuhúsi Grundarfjarðar í gær með fullum sal af fólki. Leikklúbbur Grundarfjarðar ákvað að slá til annað árið í röð, eftir vel lukkaðan jólaþátt í fyrra, að setja upp jólaleikritið Jóladagatalið.   

Leikritið er skrifað af fimm Hólmvíkingum sem gáfu okkur góðfúslegt leyfi til að setja verkið upp. Það var skrifað 1989 þegar Leikfélag Hólmavíkur vantaði skemmtilegt jólaleikrit fyrir alla fjölskylduna. Þeim tókst það vel og hafa sett það upp tvisvar sinnum með 10 ára millibili. Þau hafa svo lagt það inn í leikritasafn Bandalags íslenskra leikfélaga þar sem við rákumst á það.

Þegar leikritið var fundið og leyfi komið fyrir uppsetningu fórum við að leita af leikstjóra. Lítill fugl hvíslaði því að okkur að á Nesinu væri einn frábær leikstjóri sem við ættum að athuga með. Sá maður heitir Gunnsteinn Sigurðsson og er grunnskólakennari og þroskaþjálfi að mennt. Haft var samband við hann og má segja að hann hafi ekki hugsað sig tvisvar um. Gunnsteinn hefur lokið þremur leikstjórnarnámskeiðum við Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Þetta er sjötta leikstjórnaverkefnið sem Gunnsteinn leikstýrir, hann hefur einnig leikið í nokkrum leikverkum. Má þar nefna m.a Stykkið hjá leikfélaginu Grímni í Stykkishólmi, Söngvaseið hjá Litla leikklúbbnum á Ísafirði og Klerkar í klípu hjá Leikfélagi Ólafsvíkur. Svo hann hefur komið við víða.

 

Æfingar byrjuðu hjá okkur 11. nóvember og hefur gengið eins og í lygasögu. Allir þeir sem haft var samband við voru boðnir og búnir að aðstoða okkur hvort sem það voru tæknimál, búningamál, leikmunir eða styrkir til að geta auglýst okkur vel og gefið frá okkur flotta leikskrá. Viljum við þakka öllum sem komu að þessari uppsetningu með einum eða öðrum hætti hjartanlega fyrir. Sérstaklega viljum við þakka Grundarfjarðarbæ fyrir að styðja við bakið á okkur með aðstöðu til æfinga og sýninga.

Nú eftir að hafa starfað í ár er leikklúbburinn orðið löglegt félag með kennitölu og eigin bankareikning. Við erum afar stollt af því. Okkur langar mikið til að ná til þeirra sem sátu í gamla leikfélaginu hér áður fyrr og annarra til að fá í lið með okkur. Ekkert aldurtakmark er né hámark. Okkur vantar alltaf fólk þó svo að sá mannskapur sem nú til staðar standi sig með prýði. En ef fer sem horfir og við setjum upp stærra verk þarf fleira fólk. Ekki bara leikara einnig búninga, fólk í förðun, leikmuni og fleira. Ef þig langar til að taka þátt geturðu sent okkur línu á leikklubbur@gmail.com eða nálgast okkur á facebook (Leikklúbbur Grundarfjarðar).

Næstu sýningar hjá okkur eru 14. og 16. des og hefjast kl. 18. Ekki er gert ráð fyrir fleiri sýingum en þetta. Húsið okkar tekur það marga í sæti að ekki ætti að vera þörf á fleiri sýingum. Ef þú ert ekki búin að næla þér í miða getur gert það í síma 868-4474.

Bestu þakkir og jólakveðjur

Leikklúbbur Grundarfjarðar