Í kvöld, laugardaginn 16. apríl kl. 21.00, verður bein útsending á RÚV frá hinni árlegu Söngkeppni Félags framhaldsskólanema sem fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga tekur nú í fyrsta sinn þátt í keppninni, en fulltrúi skólans verður Sigurbjörg Eva Stefánsdóttir (úr Staðarsveit) sem mun syngja lagið Ekkert breytir því með Sálinni hans Jóns míns. Sigurbjörg sigraði í undankeppni FSN fyrir söngkeppnina, þann 9. mars sl.

Hópur nemenda úr FSN hélt til Akureyrar í gær til að fylgjast með keppninni og hvetja sinn keppanda.

Á vefnum www.ruv.is segir að þetta sé í sextánda sinn sem Félag framhaldsskólanema standi fyrir söngkeppninni og jafnoft hafi Sjónvarpið sýnt frá henni.

„Mikið er lagt í keppnina að þessu sinni og mun á þriðja tug skóla senda fulltrúa í hana. Fjöldi þjóðþekktra söngvara hefur stigið sín fyrstu spor í sviðsljósinu í þessari keppni og það er aldrei að vita nema ný stjarna fæðist í kvöld“ segir á vefnum. Þar er einnig að finna röð keppenda vegna SMS-kosningar sem fram fer og er FSN nr. 12 í röðinni.