Í dag er fáni dreginn að hún á fánastöngum við bæjarskrifstofuna og heilsugæslustöðina. Tilefni þessa fánadags er að fyrir 87 árum, 1. desember 1918, tóku sambandslög Íslands og Danmerkur gildi. Lögin mörkuðu þáttaskil í sjálfstæðisbaráttunni, Ísland varð fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.
Helstu atriði sambandslaganna voru:
-
Danmörk fór með utanríkismál Íslands í umboði þess.
-
Danmörk hafði á hendi landhelgisgæslu þar til Ísland tæki hana í sínar hendur.
-
Ríkisborgararéttur var aðskilinn, en var þó gagnkvæmur í báðum löndum.
-
Hæstiréttur Dana hafði æðsta dómsvald í íslenskum málum þar til Ísland stofnaði hæstarétt.
-
Ísland lýsti yfir ævarandi hlutleysi.
-
Þing hvorrar þjóðar gat krafist endurskoðunar laganna eftir árslok 1940. Væri nýr samningur ekki gerður innan 3 ára frá frá því krafa um slíkt kom fram gátu þjóðþingin fellt hann úr gildi ef 2/3 hluti þingmanna samþykktu slíkt og 3/4 greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 3/4 atkvæðisbærra kjósenda tækju þátt.
Með þessum lögum sem samþykkt voru á Alþingi og Ríkisþingi Danmerkur var leiðin greið til sambandsslita og lýðveldisstofnunar eftir 25 ár.
Fullveldið 1918 var takmarkið sem að var stefnt stig af stigi áratugina á undan og er að margra áliti stærsta og merkasta skrefið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Það er a.m.k. full ástæða að minnast þessa dags, ekki síður en lýðveldisstofnunarinnar 17. júní 1944. Grundfirðingar eru því hvattir til að flagga í dag.
Heimildir:
http://heimastjorn.is/leidin-til-sjalfstaedis/
Einar Laxness: Íslandssaga l-ö, Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins 1977, bls. 113-114.
Morgunblaðið,18. júlí 1918 (Aukablað), og 1. desember 1918. Sjá http://www.timarit.is/