Það er ávallt markmiðið að rekstur sveitarfélagsins sé sem hagkvæmastur, að gætt sé kostnaðaraðhalds og reynt að finna leiðir til aukinnar hagkvæmni

.

Í tengslum við fjárhagsáætlunargerð ársins 2003 ákváðu forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins að hafa með sér samráð um það hvernig ná mætti aukinni hagkvæmni í rekstrinum.

Ákveðið var að setja á laggirnar litla nefnd sem gengur undir því ófrumlega heiti ,,sparnaðarnefndin”, en í henni sitja fulltrúar frá nokkrum stofnunum sveitarfélagsins.

Eitt af verkefnum nefndarinnar er að samræma betur innkaup hjá stofnunum, sem margar hverjar eru að versla við sömu aðila, að leita ávallt hagstæðustu tilboða og veita aukið aðhald. Auðvitað hefur þessum þáttum verið sinnt en mikill vilji var til markvissari og enn frekari aðgerða í þessa átt. 

 

Nefndin fundaði í morgun og ræddi m.a. innkaup á ýmsum rekstrarvörum, s.s. hreinlætisvörum og pappír.

Margra sjónarmiða þarf að gæta í þessum efnum, reyna þarf að versla í heimabyggð ef mögulegt er, kanna hvort varan er umhverfisvæn, eru gæðin og þjónustan sambærileg, o.s.frv.

Nefndin mun einnig skoða og bera saman bækur um hvernig staðið er að kaupum á ýmissi þjónustu, s.s. frá verktökum, iðnaðarmönnum og þjónustufyrirtækjum og kanna hvort breyta eigi áherslum. Á t.d. að auka útboð verkefna, gera þjónustusamninga, sinna fleiri eða færri verkefnum á eigin spýtur, og svo mætti áfram telja.

Þetta er auðvitað verkefni allra sem standa í rekstri og meginsjónarmiðið er að ,,reka fyrirtækið eða stofnunina ekki lakar en heimilið sitt”.

Það hlýtur að vera hagur skattgreiðenda.