Þessa dagana er fundað nokkuð stíft í sorpnefnd Grundarfjarðarbæjar, en það er sérstök starfsnefnd sem bæjarstjórn skipaði til að fjalla um breytingar í sorpmálum og rekstur málaflokksins.

 

Nefndin hefur verið að vinna að hönnun og fyrirkomulagi á sorpmóttökustöð en Erla Bryndís landslagsarkitekt hafði hannað stöðina og umhverfi hennar. Einnig hefur nefndin verið að leggja mikla vinnu í að undirbúa útboðsgögn og ræða tilhögun sorpútboðs sem ætlunin er að fram fari með vorinu. Sú vinna verður lögð fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu þegar þar að kemur.

 Íbúðir eldri borgara

Á vettvangi bæjarstjórnar og bygginganefndar íbúða eldri borgara hefur verið rólegt að undanförnu í kringum undirbúning að byggingu íbúða eldri borgara. Ástæðan er sú að beðið er eftir að hönnuðir hússins skili af sér teikningum, fullfrágengnum. Upphaflega var ætlunin að þeir skiluðu frágengnum teikningum um áramótin, en nú stefna þeir að því að allar teikningar verði tilbúnar fyrir lok febrúar. Það er Almenna verkfræðistofan Akranesi sem hannar húsin og vinnur allar sérteikningar, s.s. lagnateikningar og burðarþolsteikningar.  Ennfremur er beðið eftir að hönnuðirnir skili af sér kostnaðaráætlunum fyrir íbúðirnar, svo hægt sé að fara að gefa fólki betri mynd af kaup- og leiguverði þeirra. Íbúðirnar eru byggðar í hinu svokallaða félagslega íbúðakerfi.