Á fundi bæjarstjórnar í kvöld fór fram fyrri umræða fjárhagsáætlunar fyrir árið 2006. Gert er ráð fyrir að skatttekjur (bæjarsjóður - aðalsjóður) aukist um 6,5% frá árinu 2005 og verði samtals 348 millj. kr. Áætlunin gerir ráð fyrir rekstrargjöldum upp á 317 millj. kr. og þar með rekstrarafgangi uppá 31 millj. kr.

 

Séu allar stofnanir bæjarsjóðs teknar með er rekstrarafgangur samstæðunnar um 25 millj. kr. Sambærileg tala fyrir árið 2005 er áætluð um 23 millj. kr. Árin 2004 og 2003 var hinsvegar rekstrarhalli, árið 2004 uppá 7,8 millj. og 31 millj. kr. árið 2003. Viðsnúningurinn frá árinu 2003 er því um 56 millj. kr.

 

Í drögum að áætlun ársins er gert ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 150 millj. kr. sem verða fjármagnaðar með nýjum lántökum, en einnig er gert ráð fyrir að lækka eldri skuldir um 100 millj. kr. með sölu á fasteignum.

 

Tekið skal fram að enn er um drög að áætlun að ræða, fjárhagsáætlun verður endanlega staðfest við aðra umræðu þann 8. desember n.k.

 

Meðal áætlaðra framkvæmda ársins 2005 eru leikskólabyggingin sem farin er af stað, búnaður og lóð samtals 53 millj. kr., fjárveiting vegna áforma um að koma upp smíða- og verkgreinakennslu við grunnskólann, til tækjakaupa og viðhalds fasteignar, samtals um 27 millj. kr. 

 

Fjármagn er áætlað til skipulagsverkefna, til byggingar sorpmóttökustöðvar í tengslum við útboð og að lokum er áætlað að leggja fjármagn í undirbúning og mat á kostum við uppbyggingu sundlaugar. Á fundinum var jafnframt samþykkt tillaga forseta bæjarstjórnar um að bærinn láti meta rýmisþörf vegna nýrrar sundlaugar. Gerður verði samanburður á því annars vegar að byggja nýja sundlaug og hins vegar að endurbyggja sundlaug á núverandi stað.