Skessuhorn 22. maí 2010:

Klukkan 11 í morgun kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Grundarfjarðar. Það nefnist Athena, er ítalskt en farþegar þess enskir. Áætluð er koma 13 skipa í sumar, flest munu eiga viðdvöl í júlí, eða sjö skip og þar á meðal tvö helgina sem bæjarhátíðin Á góðri stundu verður haldin í lok mánaðarins. Síðasta skipið kemur síðan 12. september.  Runólfur Guðmundsson formaður hafnarstjórnar tók á móti farþegum við komuna í Grundarfjörð í morgun og færði fyrstu gestunum sem stigu á land á nýja hafnarsvæðið blóm og gjafir. Með skipinu eru 540 farþegar og eru 300 þeirra nú í skoðunarferð um Snæfellsnes á rútum. Skipið lætur síðan úr höfn klukkan 23 í kvöld eftir 12 tíma stopp. Áður en haldið verður um borð gefst farþegum kostur á að njóta góða veðursins, fara í verslanir, kaupa handverk, veitingar og annað sem í boði er fyrir ferðamenn í Grundarfirði.