Fyrsti sunnudagur í aðventu var haldinn hátíðlegur í Grundarfirði um liðna helgi. Dagurinn hófst á guðsþjónustu í Grundarfjarðarkirkju. Kvenfélagið, Gelym mér ei, hélt sinn árlega jólamarkað og fjölskyldudag í samkomuhúsinu. Þar var einnig tilkynnt um íþróttamann ársins 2013. Í ár voru fjórir íþróttamenn tilnefndir: Aldís Ásgeirsdóttir fyrir blak, Hermann Geir Þórsson fyrir golf, Ragnar Smári Guðmundsson fyrir fótbolta og Unnsteinn Guðmundsson fyrir skotfimi. Ragnar Smári Guðmundsson hlaut titilinn íþróttamaður ársins 2013.

 

Kl. 16:00 var boðið til veislu í Fellaskjóli, en dvalarheimilið fagnaði 25 ára

afmæli 1. desember. Það var margt um manninn og hátt í 200 manns komu til að hlýða á hátíðardagskrá og gæða sér á veitingum.

Samkvæmt hefðinni var tendrað á jólatrénu kl. 18:00. Skógræktarfélag Eyrarsveitar gefur tréð en það er tekið úr skógarreit ofan við bæinn.

Bæjarbúar létu rigningu og rok ekki á sig fá og voru fjölmargir mættir til að syngja og ganga í kringum jólatréð undir forsöng kirkjukórs Grundarfjarðarkirkju.

Dagurinn var svo kórónaður með algjörlega frábærum tónleikum Stórsveitar Snæfellsness. Flutt var glæsileg dagskrá þar sem karlakórinn Kári kom fram ásamt fjölda einsöngvara. Umgjörð tónleikanna var hin glæsilegasta og gestir á einu máli um að þarna hefði stórkostlegur menningarviðburður átt sér stað.

Við höldum með gott veganesti inn í aðventuna sem er annatími hjá mörgum. Við skulum muna að jólin eru tími ljóss og friðar, gleði og samveru. Njótum aðventunnar með kærleika og þakklæti í huga.

Alda Hlín Karlsdóttir

Menningar- og markaðsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar