Hljómsveitin var stofnuð í kjölfar heimsóknar Hr. Ólafs Ragnars Grímsonar til Frakklands fyrr á þessu ári. Forsetinn er verndari hljómsveitarinnar.

Tilgangur FIFO er að kynna franska og íslenska tónlist ásamt því að beina sjónum að fransk-íslenskum tengslum sem lýsa sér meðal annars í vinabæjarsambandi Grunarfjarðar og Paimpol. Þá er það einnig tilgangur hljómsveitarinnar að varpa ljósi á mikilsverða sögulega atburði sem tengja ríkin saman.

Hljómsveitin mun flytja þrjú verk og hefjast tónleikarnir klukkan 18.00 í sal Framhaldsskóla Snæfellinga. Við hvetjum Grundfirðinga til að mæta og njóta þessa einstaka listviðburðar. Enginn aðgangseyrir.

Þann 16. September næstkomandi eru 77 ár síðan skipið Pourquoi Pas? Fórst á Mýrunum og þá ætlar hljómsveitin að halda tónleika í Hörpu. Hljómsveitin er sett saman af meðlimum Kammersveitar Reykjavíkur og meðlimum úr sinfóníuhljómsveit UNESCO. Listrænn stjórnandi er Amine Kouider en hann hefur stjórnað virtum sinfóníuhljómsveitum í Frakklandi og víðar.