Þrír sjómenn um borð í skelfiskbátnum Garpi SH, komust í hann krappann þegar báturinn strandaði á skeri í Breiðafirði, suðvestur af Reykhólum, á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Þeir sendu út neyðarkall, klæddu sig í flotgalla, blésu út björgunarbát og fóru um borð í hann. Útfall var og tók bátinn, sem er 15 tonna stálbátur, að halla mikið eftir því sem sjór féll undan honum.

Skip þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum kom á vettvang, tók sjómennina um borð og náði skömmu síðar að draga bátinn af strandstað. Hann var svo dreginn til hafnar á Reykhólum í nótt og virðist ekki leka. Tildrög óhappsins eru óljós, en mikið er af skerjum í Breiðafirði.

Frétt af visir.is