Á fundi bæjarráðs þann 26. október sl. og á fundi umhverfisnefndar þann 18. október sl. var kynnt tillaga um gatnagerð í Fellabrekku. Um er að ræða nýjan botnlanga, sem kemur í framhaldi af núverandi hluta Fellabrekku. Á næstu dögum verður tillagan kynnt íbúum í nágrenninu.

 

 

Búið er að úthluta öllum lóðum við botnlangann, samtals fyrir sjö hús, og munu áform vera um byggingar á næsta ári.

Framkvæmdin verður boðin út.

 

Arkitektastofan Zeppelin, Orri Árnason og félagar, munu í byrjun nóvember kynna skipulagshópi bæjarins fyrstu hugmyndir sínar og grófar tillögur, sem eru liður í vinnu þeirra við tiltekin skipulagsverkefni bæjarins. Verkefnin felast nánar tiltekið í því að endurhanna miðbæ, skipuleggja íþrótta- og skólasvæði, nýtt hverfi við vestanverða Grundargötu og íbúðahverfi í Grafarlandi.

 

Eins og fyrr segir er um fyrstu hugmyndir að ræða, sem lagðar verða fyrir skipulagshópinn til skoðunar og athugasemda, áður en lengra verður haldið í vinnunni. Zeppelin hóf vinnuna í byrjun október. Til fróðleiks má benda á vef Zeppelin.

 

Unnið er að útboði sorpmála, þ.e. sorphirðu og rekstri og framkvæmdum við uppbyggingu sorpmóttökustöðvar. Grundarfjarðarbær fékk Ríkiskaup til að annast gerð endanlegra útboðsgagna og til að sjá um útboðið og val verktaka skv. því. Samhliða fer fram verkfræðihönnun og gerð verklýsingar á framkvæmdum við byggingu móttökustöðvarinnar, en Teiknistofan Eik hafði hannað svæðið. Gert er ráð fyrir að Ríkiskaup verði tilbúin með gögn til útboðs í lok nóvember.