Vorið er komið – og tími til að taka til hendinni!

Fimmtudaginn 3. maí 2012 stendur UMFG fyrir tiltektardegi og

samveru á íþróttavellinum.

Markmiðið er að gera íþróttavöllinn og umhverfi hans snyrtilegt og aðlaðandi fyrir sumarið.

Íþróttasvæðið er nýtt á sumrin fyrir frjálsíþróttaæfingar, fótboltann, æfingar bæði yngri og eldri liða, þar eru haldnir fótboltaleikir og fjölmargir nýta sér hlaupabrautirnar til að ganga eða hlaupa á. Auk þess blasir íþróttasvæðið við þegar komið er inn í bæinn. Það skiptir því miklu máli að svæðið sé bæði snyrtilegt og sem hentugast til notkunar.

Þess vegna viljum við nú kalla fram hinn sanna Ungmennafélagsanda og fá íbúa í lið með okkur við að taka til hendinni við að snyrta svæðið, mála og vinna létta hreinsunarvinnu. Á eftir ætlum við svo að fagna vel unnu verki og grilla ofan í mannskapinn.

Við hvetjum alla til að koma, fyrrverandi og núverandi íþróttaiðkendur, foreldra og bara alla sem vilja gera gott íþróttastarf enn betra – og fallegan bæ enn fegurri!

Mæting á íþróttavellinum kl. 16.30 fimmtudaginn 3. maí.

Öll verkfæri verða á staðnum, en gott er að taka með sér hanska.

Með Ungmennafélagskveðju,

Stjórn UMFG