Undirrituð hefur haft það fyrir venju við undangengin áramót að rifja upp það sem helst bar til tíðinda í starfsemi og verkefnum bæjarfélagsins á liðnu ári – sem og ýmis önnur hagsmunamál sem snert hafa bæjarbúa.

 

Árið 2004 var viðburðaríkt fyrir Grundfirðinga.

 

Byggingarframkvæmdir hófust við skólahúsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga, sem var svo settur í fyrsta sinn 30. ágúst.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, flytur ávarp

við fyrstu skólasetningu FSN.

 

Starfsemi hófst í hluta hússins, en húsnæðið allt verður vígt formlega þann 7. janúar n.k. Aðsókn nemenda fór langt fram úr björtustu vonum og yfir 100 nemendur stunduðu nám á haustönn. Starfið hefur farið afar vel af stað og í desember lá fyrir að um 145 nemendur væru skráðir til náms á vorönn, þó ekki séu allir í fullu námi. 

 

 

 

Nemendur FSN við tölvur sínar, haust 2004.

 

Fundað var um sameiningarmál og nefnd á vegum félagsmálaráðuneytis hefur lagt til að kosið verði um sameiningu Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar, Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps. Sett var á laggirnar samstarfsnefnd Snæfellinga til að skoða og meta kosti og galla sameiningar. Nefndin skilaði skýrslu milli jóla og nýárs og kynningarfundur um starf nefndarinnar verður haldinn fyrir sveitarstjórnarmenn 3. janúar n.k.

 

Lokið var við sjö nýjar íbúðir fyrir eldri borgara við Hrannarstíg 28-40 og þær afhentar eigendum sínum í áföngum.

 

Áfram var haldið með gatnagerð í Ölkeldudal og síðla árs var byrjað að byggja á einni af nýju byggingarlóðunum sem þar fengust með framkvæmdunum.

 

Trésmiðja Guðm. Friðrikssonar reisir parhús við Ölkelduveg.

 

Áfram var unnið við aðalskipulag dreifbýlis, m.a. var fornleifafræðingur að störfum við skrásetningu fornminja í nokkra mánuði.

 

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi unnu að því að fá vottun sem sjálfbært samfélag, vottunarsamtökin Green Globe 21 veittu sveitarfélögunum viðurkenningu á starfi sínu á World Travel Market ferðasýningu í London í nóvember sl.

 

 

 

Boruð var rannsóknarhola í Berserkseyrarlandi fyrripart árs og gaf góðar væntingar um árangur í heitavatnsmálum, en unnið hefur verið að rannsóknum og undirbúningi á árinu.

 

Þrettán skemmtiferðaskip heimsóttu Grundarfjarðarhöfn á árinu, fleiri en nokkru sinni. Höfnin var meðal allra fyrstu hafna til að uppfylla ákvæði um siglingavernd og gera sér öryggisáætlun. Hafnarstjórn lenti í hálfgerðu fjölmiðlafári vegna bréfs til sjávarútvegsráðuneytisins, afdrifaríkar tvær og hálf lína í bréfi og hrefnuveiðimenn urðu æfir yfir að hafnaryfirvöld ætluðu að loka á þá. Ekkert slíkt stóð til, en afleiðingar reglna um siglingavernd áttu þar hlut að máli.

Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Verkfall grunnskólakennara setti svip sinn á skólahald í Grundarfirði síðla hausts, sem og víðar um landið. Grunnskólinn fékk úthlutað Comeniusarstyrk vegna samskipta við frönsk skólabörn í vinabæ okkar, Paimpol í Frakklandi, en ætlunin er að skiptast á heimsóknum á komandi vori. Skólabókasafn var sameinað almenningsbókasafni og Leikskólinn Sólvellir fékk úthlutað styrk úr Þróunarsjóði leikskóla.

 

Sparkvallaátak KSÍ teygði anga sína til Grundarfjarðar, bæjarstjórn sótti um og fékk úthlutað gervigrasi – gegn því að byggja upp almennilegan sparkvöll.

 

KSÍ fulltrúar mættu við athöfn í nóvember.

 

Það var gert og KSÍ lét leggja hann grænu gervigrasi – mörgum til mikillar ánægju. Vígsluleikur leikinn þann 23. september þar sem UMFG og bæjarstjórn öttu kappi og sýndu frábæra takta. Úrslitin ekki höfð í flimtingum, en hægt að lesa um þau annars staðar hér á bæjarvefnum!

Lið UMFG og bæjarstjórnar, 23. sept.
 

Gert var við sundlaugina, en ástand hennar var mun betra en margir höfðu talið. Einnig var unnið við umfangsmiklar lagnaframkvæmdir í vatnsveitu og holræsum í Hrannarstíg ofanverðum og hlaðin var sjóvörn í Torfabót og nágrenni við Sæból.

 

Umhverfisráðherrar voru skipaðir í fjórum hverfum bæjarins og veittu bæjarstjóra og starfsmönnum ráðgjöf um umhverfismál -  almennt ástand í byggðarlaginu. Ætlunin er að vinna áfram á þeim nótum og nýta ráðherrana í því viðfangsefni að betrumbæta umhverfið.

 

Menningin blómstraði á árinu. Grundarfjarðarhátíðin, Á góðri stundu í Grundarfirði, var sérlega eftirminnileg. Hverfahátíðir – gulur, rauður, grænn og blár – með grillveislum og litríkum skrúðgöngum verða lengi í minnum hafðar – og blessuð blíðan!

 

Bláa hverfið spilar. Mynd R.S.

 

Rökkurdagar, menningarhátíð Grundfirðinga, var haldin í fyrsta sinn á vegum fræðslu- og menningarmálanefndar í rúmar þrjár vikur í október-nóvember; fjölmargir viðburðir, aðallega skaffaðir af listamönnum heima fyrir og notið af heimamönnum, sem voru duglegir að mæta.

 

Vorgleðihópurinn skemmti Grundfirðingum svo um munaði - að sjálfsögðu um vorið - og lagði innkomu skemmtunarinnar í fjárfestingu í hljóðkerfi samkomuhússins og til málefna unglinga í Grundarfirði.

Söngsveitin Sex í sveit heillaði Reykvíkinga á vetrarhátíð í höfuðborginni í febrúar og Dixielandband Grundarfjarðar hélt tónleika í sömu borg í marsmánuði. Fleiri listamenn unnu að ,,útrás” grundfirskrar menningar, t.d. Friðrik V. Stefánsson skólastjóri Tónlistarskólans og organisti Grundarfjarðarkirkju sem hélt orgeltónleika í Stokkhólmi, Stykkishólmi og víðar.

 

Ljósmyndavefur Bæringsstofu (sem er til húsa í Sögumiðstöðinni) var opnaður á fæðingardegi Bærings heitins, þann 24. mars.

Þann 16. júní var Gestastofa opnuð í Eyrbyggju - Sögumiðstöð, enn einn áfanginn í uppbyggingunni þar og rúmum mánuði síðar var sýningin Íslands þúsund ár opnuð ,,á góðri stundu...” og hulunni svipt af vélbátnum Brönu SH sem gerður hafði verið upp. Í desember var svo opnuð Jólastofa í Sögumiðstöðinni.

 

Andrúm 6. og 7. áratugar síðustu aldar fangað.

 

Fimmta bindi ritsins Fólkið, fjöllin, fjörðurinn kom út á vegum Eyrbyggja, hollvinasamtaka Grundarfjarðar, í lok júlí, og ennfremur kort Reynis Ingibjartssonar um mið-Snæfellsnes.

 

Íþróttamaður Grundarfjarðar var valinn af íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins í byrjun aðventu, Ólafur Tryggvason úr Hesteigendafélagi Grundarfjarðar.

 

Kolgrafarfjörður varð loksins akfær – yfir fjörð, en ekki fyrir hann! Þann 13. desember hleypti samgönguráðherra umferð formlega á hið nýja samgöngumannvirki. Nokkur frágangur er þó enn eftir sem lokið verður við á nýja árinu og mannvirkið þá formlega vígt.

 

 

Brú og vegur yfir Kolgrafarfjörð. Mynd G.Kr.

 

Hitabylgja kom – sá og sigraði Grundfirðinga sem og fleiri landsmenn – í ágústmánuði, hitamet voru slegin, tæpar 25 gráður í Grundarfirði. Fleiri komu til Grundarfjarðar, t.d. Skjár einn – sem reyndar er talinn hafa guðað á skjáinn hér í bæ nokkru fyrr en hann taldi sjálfur.

 

Ýmsar breytingar urðu á starfsmannahaldi hjá bænum, sem ekki verða tíundaðar hér nema að litlu leyti. Nýtt starf umsjónarmanns fasteigna varð til við breytingar, nýr slökkviliðsstjóri tók til starfa og breytingar urðu á störfum á bæjarskrifstofu og bókasafni. Bæjarstarfsmenn héldu fyrstu árshátíð sína í október og skemmtu sér vel.

 

Ýmislegt fleira mætti tína til, en hér skal látið staðar numið að sinni. Lokaupprifjunin er þó um litla frétt sem vakti samt mikla athygli, en hún birtist á baksíðu Moggans í byrjun nóvember og bar yfirskriftina: Grundfirðingar allra bjartsýnastir. Var þar vísað til niðurstaðna könnunar Byggðarannsóknastofnunar Íslands um tengsl samfélagsanda og nýsköpunarstarfs í tilteknum landshlutum, en þar kom fram að 87% Grundfirðinga sögðust bjartsýn á framtíð byggðarlagsins hvað varðar atvinnuþróun og skáru sig með því verulega úr í svörum.

Vonandi munu Grundfirðingar bera gæfu til að nýta tækifæri sín vel á nýju ári með bjartsýnina að vopni og leiðarljósi.

 

 

Sendum Grundfirðingum, nær og fjær, Vestlendingum og landsmönnum öllum

 bestu óskir um farsæld á nýju ári.

 

1. janúar 2005,

F.h. Grundarfjarðarbæjar,

 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri