Skemmtiferðaskip leggur í fyrsta sinn að lengdum Norðurgarði, 1. júlí 2021. 
Mynd Tómas Freyr Krist…
Skemmtiferðaskip leggur í fyrsta sinn að lengdum Norðurgarði, 1. júlí 2021.
Mynd Tómas Freyr Kristjánsson.
 
Hafnarstjórn Grundarfjarðarhafnar hélt átjánda fund sinn á þessu kjörtímabili (og líklega þann síðasta) þann 29. apríl sl. Á fundinum fór hafnarstjórn yfir framkvæmdir síðustu ára, samþykkti ársreikning Grundarfjarðarhafnar 2021 og rýndi í þróun í komum skemmtiferðaskipa og þá þjónustu sem veita þarf skipum og farþegum. Sjá fundargerð hér. 
 
Góð afkoma hafnarinnar 2021 og höfnin skuldlaus í mars 2022
 
Á árinu 2021 varð 30% aukning í lönduðum afla hjá höfninni. Landaður afli fór í tæp 23.700 tonn árið 2021 úr tæpum 18.500 tonnum árið 2020. Er það mesta magn landaðs afla í yfir 20 ár. 
 
Heildartekjur hafnarinnar jukust um 45% milli ára, fóru úr rúmum 97 millj. kr. árið 2020 í rúmar 141 millj. kr. árið 2021.  Laun og önnur rekstrargjöld voru tæpar 63 millj. kr., en voru tæpar 62 millj. kr. árið 2020. Þar af var viðhald fasteigna 3,9 millj. kr. samanborið við 15,7 millj. kr. árið 2020.  
 
Að teknu tilliti til fjármagnsgjalda að fjárhæð 0,25 millj. kr. er rekstrarniðurstaða hafnarsjóðs jákvæð um rétt tæpar 66 millj. kr. árið 2021, en var jákvæð um 25,4 millj. kr. árið 2020.
 
Fjárfest var fyrir tæpar 42 millj. kr. árið 2021, en fyrir 133,5 millj. kr. árið 2020 og 121,3 millj. kr. árið 2019, eða samtals fyrir rétt tæpar 300 millj. kr. síðustu þrjú árin. Er þar átt við bókfærðan hlut hafnarinnar, en ríkið leggur framlag á móti, til hafnarframkvæmda sem þessarar.
 
Þrátt fyrir þessar miklu fjárfestingar er höfnin skuldlaus frá og með mars 2022.

Frá Grundarfjarðarhöfn 2021, mynd Tómas Freyr Kristjánsson
 
(Smellið á myndirnar til að skoða þær betur og lesa myndatexta).
 
Uppbygging hafnaraðstöðu
 
Á fundinum fór hafnarstjórn yfir þær framkvæmdir sem höfnin hefur staðið fyrir undanfarin ár.  
 
Með lengingu Norðurgarðs um 130 metra er dýpi á stórstraumsfjöru þá orðið um 10 metrar og þannig er hægt að taka á móti stærri og djúpristari skipum en áður. 
 
Við framkvæmdina skapaðist einnig tæplega 5.000 m² nýtt athafnasvæði, til viðbótar við athafnasvæðið sem var um 4.200 m².
 
Framkvæmdin hefur skilað sér  hraðar en hafnarstjórn áætlaði, í auknum umsvifum og tekjum, fyrir höfn og þjónustufyrirtæki.
Auk þess var gerð landfylling á hafnarsvæði austan Nesvegar, sem mun skila sér á næstu misserum.
 
Þessar framkvæmdir kostuðu rúmlega 700 milljónir (höfn greiðir ca. 40%), en auk þess var höfnin í fleiri verkefnum samhliða.  
 
Dæling í landfyllingu 2020, Mynd Tómas Freyr
 
Búið er að kaupa nýja flotbryggju, breiðari og lengri, sem þýðir meira öryggi fyrir gesti skemmtiferðaskipa, sem koma á léttabátum frá skipum sem liggja við ankeri á ytri höfn.

Nú er verið að brjóta upp elsta hluta þekjunnar á Norðurgarði og steypa nýja, en hluti hennar var farinn að síga töluvert og kominn tími á endurnýjun. Skipt verður um raflagnir í leiðinni en nýjar og stærri lagnir verða lagðar í raftengikassa fyrir skipin.
 
Upp um deild í móttöku skemmtiferðaskipa  
 
Á fundi hafnarstjórnar var lagt fram yfirlit hafnarstjóra um komur skemmtiferðaskipa í Grundarfjarðarhöfn frá árinu 2002, en höfnin hefur unnið í markaðssókn skemmtiferðaskipa í tæp 20 ár. Fjöldi skipa hefur aukist síðustu árin og tekjur hafnarinnar sömuleiðis.
 
Þjónusta við skemmtiferðaskip hefur leitt af sér aukna arðsemi hafnarmannvirkja og aðstöðu, og auknar tekjur og styrkingu hafnarsjóðs sem getur á móti veitt enn betri þjónustu, segir í bókun hafnarstjórnar.
 
Auk þess hefur fjöldi fólks á Snæfellsnesi atvinnu af því að þjónusta skip og gesti - sem fara í ferðir um allt svæðið.

Árið 2020 komu engin skip vegna Covid og árið 2021 voru komur skemmtiferðaskipa alls 31 talsins.
Árið 2019 var síðasta ár fyrir Covid og voru komur skemmtiferðaskipa þá 50 talsins, samtals uppá 787.110 brúttótonn og var farþegafjöldi 17.681 manns. Áætlaður heildarfjöldi ferðamanna á Snæfellsnesi það ár var um 600-900 þúsund manns.
 
Skemmtiferðaskip leggur að lengdum Norðurgarði í fyrsta skipti, 1. ágúst 2021
 
Í sumar eru bókaðar 43 komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðarhafnar, samtals uppá 1906 þús. brúttótonn og með um 50.000 farþega. Reiknað er með að tekjur hafnar af skemmtiferðaskipum verði um 33% heildartekna í ár, þrátt fyrir mikla aukningu tekna af þjónustu við fiskiskip. Árið 2019 voru 23% af heildartekjum hafnarinnar vegna skemmtiferðaskipa. 

Sumarið 2023 er búið að bóka 54 komur skemmtiferðaskipa, samtals uppá 2.330 brúttótonn, með gestafjölda ca. 65.000 manns. Tekjur hafnar gætu numið um 70 millj. kr. m.v. verðlag og gjaldskrá í dag.

Segja má að höfnin sé að fara "upp um deild" í stærð og þjónustu við skemmtiferðaskip. Vilji hafnarstjórnar er að höfnin gæti vel að því hvernig skip og gestir eru þjónustaðir, að upplifun gesta sé ánægjuleg og að aðstaðan til móttöku gesta mæti kröfum þeirra. Auk þess sé mikilvægt að samfélagið takist á við verkefnið af jákvæðni, en ljóst er að aukinn gestafjöldi mun hafa áhrif í samfélaginu.
  
Hafnarstjórnarfulltrúar kvaddir 
 
Runólfur Guðmundsson og Sólrún Guðjónsdóttir hafa lýst því yfir að þau muni ekki sitja áfram í hafnarstjórn.
Runólfur hefur setið í hafnarstjórn í um 50 ár og Sólrún í 8 ár.  Bókaðar voru þakkir til þeirra sem lesa má neðst í þessari fundargerð.   
 
Sólrún og Runólfur úr hafnarstjórn, með Hafsteini hafnarstjóra, í skoðunarferð á Norðurgarði 29. apríl 2022